Ríki sem Ísland ætti að efla og rækta samskipti við

Gunnar Snorri Gunnarsson hefur verið sendiherra Íslands í Peking í …
Gunnar Snorri Gunnarsson hefur verið sendiherra Íslands í Peking í 14 ár. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Haldin var málstofa í dag þar sem þau Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og Snæfríður Grímsdóttir, aðjúnkt í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands, greindu frá skýrslu sinni um aukin samskipti Íslands við Kína, og bar yfirskriftina „Skjól eða gildra?“.

Í skýrslunni fara þau yfir pólitísk, efnahagsleg og samfélagsleg samskipti Íslands og Kína á árunum 1995 til 2021, sem vakið hafa athygli víða um heim. Þar fjalla þau meðal annars um það að Ísland sóttist eftir efnahagslegu og pólitísku skjóli kínverskra stjórnvalda eftir hrun, fara yfir náin samskipti landanna í kjölfar þess og hvernig þau hafa þróast til dagsins í dag.

Segir orðið skjól vera gildishlaðið

Pallborðsumræður voru á málstofunni en þar sátu þau Snæfríður Grímsdóttir, aðjúnkt í Kínverskum fræðum við Háskóla Íslands, Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra, Guðbjörg Ríkey Th. Hauksdóttir, verkefnastjóri hjá Rannsóknarsetri um norðurslóðir og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans.

„Mér finnst orðið skjól vera gildishlaðið að hluta og ekki alltaf mjög viðeigandi þegar við eigum við samskipti við Kína,“ sagði Gunnar Snorri Gunnarsson, sendiherra Íslands í Peking, í pallborðsumræðunum.

„En að sjálfsögðu er það svo að Kína, sem er uppvaxandi og verður í fyrirsjáanlegri framtíð stærsta efnahagsveldi heims og er jafnvel orðið það útfrá ákveðnum mælikvörðum, að þá er þetta ríki sem að við verðum að sjálfsögðu að efla og rækta okkar samskipti við.“

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Ljósmynd/KRISTINN INGVARSSON

Njótum enn samfélagslegs skjóls norðurlandasamvinnunnar

Í erindi sínu kynnti Baldur helstu niðurstöður skýrslunnar og sagði að skýrslan hefði verið unnin út frá kenningum í alþjóðastjórnmálum og kenningum í smáríkjafræðum. Þá var skýrslan einnig unnin út frá kenningunni um skjól, sem kveður á um að lítil ríki þurfi á pólitísku, efnahagslegu og samfélagslegu skjóli stærri ríkja og alþjóðastofnana að halda til þess að styrkja innviði sína og ná fram markmiðum sínum í alþjóðakerfinu.

„Eins og allir þekkja þá var Ísland í pólitísku og efnahagslegu skjóli Bandaríkjanna á árunum eftir síðari heimsstyrjöld og í samfélagslegu skjóli norðurlandanna eins og við sjáum það fyrir okkur,“ sagði Baldur.

„Í dag njótum við enn samfélagslegs skjóls að norðurlandasamvinnunni og efnahagslegs skjóls af aðildinni af evrópska efnahagssvæðinu. Bandaríska hernaðarskjólið er enn til staðar en Bandaríkin eru fyrir löngu hætt að veita okkur diplómatíska aðstoð í alþjóðastofnunum.“

Fundinn er hægt að horfa á í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert