„Skiljanlegt að fólk kalli í örvæntingu sinni“

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, segist í vikulegum forstjórapistli skilja örvæntingu og reiði fagfólks en að fólk þurfi að gæta hófs í umræðunni. Í gær barst heilbrigðisráðherra opið bréf frá stjórn Félagi bráðalækna þar sem skorað er á ráðherra og ríkisstjórnina að grípa inn í ástandið með afgerandi hætti.

Í pistlinum segir Páll að bráðamóttakan ráði illa við sitt hlutverk ef aðrir þættir heilbrigðiskerfisins virka ekki, í því samhengi segir hann að stærsta vandamálið séu útskriftir af bráðamóttökunni.

„Ekki útskriftir þeirra sem fá þjónustu og fara heim. Nei, vandinn hefst þegar fólk þarf innlögn á spítalann vegna þess að það er fárveikt. Legurými á spítalanum eru með því minnsta sem þekkist á sjúkrahúsum á Norðurlöndum, sem hlutfall af fólksfjölda (og hvað þá þegar fjöldi ferðamanna bætist við).“

Páll segir að ekki sé hægt að fjölga rúmum nema til þess fáist aukið fjármagn og hægt sé að ráða fleiri hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem skortur sé á á landsvísu.

Segir stjórnendur spítalans svo sannarlega hlusta

Hann segist skilja örvæntingu og reiði fagfólks þegar það upplifi það að ekki sé hlustað.

„Ég hef hér ofar rakið það að stjórnendur spítalans eru svo sannarlega að hlusta og að fjölmargt hefur verið gert til að bregðast við vandamálunum. Það sama á við um heilbrigðisyfirvöld sem eru öll af vilja gerð að leysa málin. Vandinn er samt sá að þetta er eins og að berjast við kynjaskepnu sem á vaxa tveir hausar fyrir hvern sem hogginn er af.“

Páll segir að sífellt sé að vinna í bættum ferlum og meta þjónustuna.

Að lokum segir Páll að fólk þurfi að gæta hófs í umræðunni. „Mikilvægt er sýna yfirvegun og sameinast í gífuryrðalausu, skýru og vel rökstuddu ákalli til þeirra stjórnvalda sem hér taka við á næstu vikum um að gera betur og fjármagna með fullnægjandi hætti heilbrigðisþjónustuna í heild og Landspítala sérstaklega. Það er óhjákvæmilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka