Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ánægður með fréttir morgunsins um gríðarstóra hækkun aflamarks til loðnuveiða.
Hann segir að þetta skapi tækifæri fyrir smærri byggðir úti á landi og sé jákvætt fyrir íslenskt hagkerfi, sem enn réttir úr kútnum eftir efnahagslægð af völdum heimsfaraldurs.
Í morgun var tilkynnt að Hafrannsóknarstofnun ráðleggði allt að 904.200 tonna loðnuveiði fyrir komandi vertíð. Það er þriðja stærsta mæling í sögunni og sú stærsta í tvo áratugi.
„Þetta eru góðar fréttir, ekki síst fyrir einstaka byggðir í landinu. Undanfarin ár höfum við horft upp á loðnubrest, en það er einungis vegna fleiri öflugra stoða í hagkerfinu sem áfallið fyrir íslenskan efnahag í heild hefur ekki verið meira en raun ber vitni,“ segir Bjarni í svari við fyrirspurn mbl.is.
Bjarni segir að ekki þurfi að tvíræða um þýðingu þessa fyrir íslenskt atvinnulíf og íslenskt samfélag.
„Með stórauknu aflamarki nú myndum við sjá fram á umtalsvert meiri útflutningstekjur og hagvöxt umfram væntingar á næsta ári,“ segir hann.
Þar að auki er ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar mikil innspýting fyrir hagkerfi, sem enn er að ná sér á full skrið eftir faraldurinn.
„Þannig bætist enn í góðar horfur og líkurnar aukast á að við getum vaxið enn hraðar út úr kórónukreppunni á komandi misserum,“ segir Bjarni.