„Við munum væntanlega taka okkur smá hlé um helgina til að ræða við okkar fólk og fara yfir þau heimaverkefni sem við erum með. Svo munum við taka þráðinn upp aftur eftir helgi,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri Grænna um stöðu mála í stjórnarmyndunarviðræðunum.
Katrín fundaði með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og Sigurði Inga Jóhannssyni formanni Framsóknarflokksins í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu um kl. 10 í dag þar sem þau ræddu sín á milli um mögulegt stjórnarsamstarf.
Vel gekk að funda og góður andi var í hópnum, segir Katrín innt eftir því. Engar endanlegar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum, til að mynda hvað varðar uppstokkun ráðuneyta eða stofnun nýrra ráðuneyta heldur muni hópurinn halda áfram að fara yfir „stóru málin“.
„Það er auðvitað þannig að niðurstaða kosninganna var að þessi ríkisstjórn héldi sínum meirihluta og vinna okkar núna snýst að mestu um að endurnýja okkar samstarf. Fara yfir bæði stóru viðfangsefnin sem eru framundan og okkar áherslur.
„Við erum fyrst og fremst að velta fyrir okkur endurskoðun á verkefnum, tilflutningi verkefna og skoða hvaða leiðir eru færar í því. Það skiptir náttúrulega miklu máli að áherslur ríkisstjórnar hverju sinni birtist í verkefnaskipan stjórnarráðsins.“
Áður en ráðist verður í slíkar ákvarðanir skipti þó máli að leggja málefnalegan grunn, að sögn Katrínar.
„Annars vegar að ákveða hvaða flögg þessi ríkisstjórn vill reisa, hvaða ágreiningsefni við þurfum að leysa áður en við leggjum af stað og hvaða viðfangsefni þarf svo að takast á við á kjörtímabilinu óháð þeirri ríkisstjórn sem situr. Þannig þetta er eiginlega þrískipt.“
Ekki liggur fyrir hvort ríkisstjórnin hyggist stofna nýtt loftlagsráðuneyti. Loftlagsmálin muni þó hljóta meira vægi en áður gangi viðræður flokkanna vel, að sögn Katrínar.
„Loftlagsmálin munu verða mjög fyrirferðarmikil en hvernig nákvæmlega við horfum á það innan stjórnarráðsins á eftir að skýrast betur. Leyfi ég mér þó að segja að þau fái enn meira vægi ef þessir þrír flokkar ná saman.“
Þá var Katrín ekki tilbúin að svara því hvort Vinstri græn hyggist áfram fara fram á forsætisráðuneytið, heilbrigðis og umhverfisráðuneytið, innt eftir því.
„Við ræðum verkaskiptinguna bara í lokin, þegar við erum orðin endanlega sannfærð um það að við stöndum á sterkum málefnalegum grunni.“