Tveir borgarísjakar út af Hraunhafnartanga

Annar tveggja ísjaka út af Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu.
Annar tveggja ísjaka út af Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu. Ljósmynd/Joana Micael

„Fyrstu viðbrögð voru auðvitað að líta í kringum sig eftir bangsa,“ segir Sigurður Örn Óskarsson, íbúi á Raufarhöfn, um það þegar hann sá borgarísjaka á reki út af Hraunhafnartanga við Melrakkasléttu í gær.

Sigurður hafði verið á leið út á sléttu ásamt vini sínum og systur til að gera við fjórhjól þegar hann fær fregnir af ísjakanum frá móður sinni.

Þegar niður á Melrakkasléttu var komið og ísjakinn blasti við hópnum voru fyrstu viðbrögð hans að litast um eftir ísbirni, segir Sigurður inntur eftir því. Engan ísbjörn var þó að sjá á svæðinu.

„Við hugguðum okkur við að hafa hugrakkan hund sem hefði tafið fyrir ef við myndum mæta einum.“

Sigurður birti eftirfarandi mynd af ísjakanum í færslu í Facebook-hópnum Landið mitt Ísland í gær en myndirnar eru teknar á farsíma.

Ísjakinn sást frá Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu í gær, 30. september.
Ísjakinn sást frá Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu í gær, 30. september. Ljósmynd/Sigurður Örn Óskarsson

Veðurstofu Íslands barst fyrst tilkynning um borgarísjakana, sem eru tveir, á miðvikudaginn síðastliðinn. Annar ísjakanna er botnfastur en hinn er laus en hreyfist lítið sem ekkert, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar.

Borgarísjakarnir tveir eru merktir með rauðu.
Borgarísjakarnir tveir eru merktir með rauðu. Kort/Veðurstofa Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert