„Rignir og rignir endalaust“

Úr Eyjafjarðarsveit.
Úr Eyjafjarðarsveit. mbl.is/Margrét Þóra

Veðurviðvaranir vegna mikilla rigninga eru í gildi fyrir Norðurland vestra og eystra. Grjóthrun og aurskriður hafa orðið á Tröllaskaga og tjón hefur orðið á vegum vegna vatnsflóðs í Eyjafjarðarsveit. 

Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að ákveðið hafi verið að gefa út viðvaranir fyrir nóttina vegna hættu á frekari aurskriðum og grjóthruni. Staðan verði endurmetin í fyrramálið, en viðvaranirnar eru í gildi fram á hádegi. Skriðusérfræðingar Veðurstofunnar séu nú að meta aðstæður. 

Viðvaranirnar miða helst við Tröllaskaga að sögn Þorsteins, en hætta er á skriðufalli víðar, svosem á Ólafsfirði;

„Það hefur ekki orðið vart við neinar skriður enn þá þar, en það virðist ætla að rigna áfram í alla nótt svo að hættan er enn þá fyrir hendi,“ segir Þorsteinn. 

Siglufjarðarvegur enn opinn

„Það er hætta við því að árnar og lækirnir bólgni út í þessari rigningu, geta flætt yfir bakka jafnvel. Svo eykst hættan á aurskriðum og grjóthruni stöðugt á meðan það rignir svona mikið eins og hefur komið í ljós á Siglufjarðarvegi,“ segir Þorsteinn. Siglufjarðarvegur er enn þá opinn samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni þrátt fyrir grjóthrun. 

Þá segir Þorsteinn að skemmdir hafi orðið á Eyjafjarðarbraut eystri vegna vatnsflóðs. 

„Það rignir og rignir alveg endalaust, en samkvæmt spánni á að draga úr á morgun,“ segir Þorsteinn. 

Hann segir að eftir helgi eigi að fara kólna á svæðinu og þar með minnki hættan á aurskriðum.  

„Ef það fer að frjósa og frystir í fjöllunum minnkar þessi hætta, en hún er til staðar núna í nótt og kannski á morgun,“ segir Þorteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert