Skjálfti upp á 4,2

Jörð skalf á suðvesturhorninu um kl. 15:32 í dag. Samkvæmt Veðurstofu Íslands var skjálftinn 4,2 að stærð og átti hann upptök sín um 1,1 km SSV af Keili.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að skjálftans hafi orðið vart á öllu suðvesturhorni landsins og allt upp í Borgarnes.

„Alls hafa á níunda hundrað skjálfa mælst frá miðnætti og er það á pari við skjálftavirkni síðustu daga. Skjálftarnir eru flestir á 5-6 km dýpi líkt og verið hefur,“ segir í tilkynningunni.  

Jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga  þann 27. september. Upptök skjálftanna eru skammt frá Keili og  hafa yfir 3000 skjálftar mælst á svæðinu, þar af 8 yfir 3 að stærð. Skjálftarnir finnast víða á Reykjanesskaganum og á suðvesturhorninu.

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert