Ari Páll Karlsson
Hermann Karlsson hjá almannavörnum og lögreglunni á Norðurlandi eystra segir að rýmingaraðgerðirnar sem nú eru við Útkinn verði í gildi að minnsta kosti fram á hádegi á morgun. Eins og staðan er núna sé ekki hægt að sjá fyrir endann á þeim.
„Við verðum með fund með veðurstofunni á morgun. Það er bara óbreytt ástand fram á hádegi. Við skoðum þetta allt í fyrramálið og veðurstofan er að gefa okkur þær vísbendingar sem við þurfum að vinna eftir. Við vonumst til að fá frá þeim frekari upplýsingar um hádegisbil eða svo,“ segir Hermann.
Hermann segir úrkomuna hafa dvínað yfir daginn í dag en spáin sýni að hún eigi eftir að fara vaxandi í kvöld og nótt. „Við þurfum að sjá hvernig við komum undan nóttinni með það.“
Spurður hvort rýmingaraðgerðirnar á svæðinu eigi sér einhverja hliðstæðu, þar sem það er þekkt skriðusvæði, svarar Hermann því neitandi. „Ekki á þessum stað. Enda hafa heimamenn ekki leigið á því að annað eins úrkomumagn hafi ekki sést í þeirra minni.“