Árekstur er alltaf áfall

Algengt er að ungir ökumenn einfaldlega vanmeti aðstæður eða ætli …
Algengt er að ungir ökumenn einfaldlega vanmeti aðstæður eða ætli sér um of, segir Ólafur Gísli. mbl.is/Unnur Karen

Allur þótti varinn góður í borgarumferðinni í sl. fimmtudagsmorgun  þegar glerhált skæni lá yfir götum í efri byggðunum eftir kalda nótt. Ökumenn vissu hvað klukkan sló, tóku mið af aðstæðum og fóru sér að engu óðslega. Allt slapp til og óhöppin í umferðinni urðu færri en búast hefði mátt við. „Við erum alltaf í viðbragðsstöðu og veðurspáin gefur okkur oft vísbendingu um hvernig dagarnir verða. Þegar veður versnar skyndilega fjölgar verkefnunum hjá okkur. Slíkt er nánast lögmál,“ segir Ólafur Gísli Agnarsson hjá Árekstur.is.

Bíllinn brotinn og beyglaður

Flestir þekkja að árekstur er alltaf áfall. Að sjá bílinn sinn brotinn og beyglaðan tekur á fólk – rétt eins og að hafa gert mistök sem valdið hafa öðrum skaða. Lögregla sinnir alla jafna aðeins umferðaróhöppum þar sem fólk hefur slasast og þá koma sjúkraflutningamenn líka á staðinn. Að öðrum kosti þurfa ökumenn sjálfir að ganga frá pappírum um málsatvik til tryggingafélaganna, en árekstur.is starfar fyrir þau og gengur frá málum. Allir hafa starfsmenn fyrirtækisins langa reynslu að baki, meðal annars sem lögregluþjónar

„Fólk er misjafnlega fært í því að ganga frá skýrslunum og skila inn upplýsingum um tjón. Sendir okkur á netinu allra helstu upplýsingar sem við nýtum í ítarlegri skýrslu. Við fáum oft innilegt þakklæti frá fólki. Mannlegi þátturinn er alltaf stór í svona verkefnum, sérstaklega þegar við förum á vettvang,“ segir Ólafur Gísli. „Skemmdir bílar og árekstrar eru í sjálfu sér alltaf mjög svipaðir. Hins vegar á hér alltaf í hlut fólk sem hefur verið í miklu andlegu áfalli. Að sýna fólki nærgætni í þessum aðstæðum er mjög mikilvægt. Stundum þarf að hringja eftir sjúkrabíl þegar slys koma í ljós eða ástand fólks er óljóst. Þegar svo er grunur um ölvun eða fíkniefnanotkun tekur lögregla við málinu.“

Hrina þegar snjór og hálka er á götum

Aðgæsluleysi er tvímælalaust helsta orsök óhappa í umferðinni. „Algengt er að fólk einfaldlega vanmeti aðstæður eða ætli sér um of. Slíkt á ekki síst við um unga ökumenn, sautján ára, sem eru nýkomnir með bílpróf,“ segir Ólafur Gísli. „Krakkarnir eru kannski á sínum fyrsta vetri í umferð og þekkja ekki hvernig aka skal í hálku eða snjó. Að bil milli bíla sé ekki nægt er líka oft ástæða árekstra eða að dekkjamálin séu ekki í lagi. Þá er alltaf nokkuð um óhöpp þar sem bílar renna til á nýju flughálu malbiki – ellegar renna til í vatnsaga og rása á slitnum götum. En fyrst kemur hrinan þegar snjór og hálka er á götum og þá er algengt að árekstrar sem við sinnum yfir vikuna séu um 100 talsins.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert