„Með því mesta sem menn hafa séð“

Slökkvilið Fjallabyggðar að störfum á Siglufirði síðastliðinn fimmtudag vegna vatnsleka.
Slökkvilið Fjallabyggðar að störfum á Siglufirði síðastliðinn fimmtudag vegna vatnsleka. Ljósmynd/Slökkviliðs Fjallabyggðar

Farið hefur verið inn á þó nokkur heimili í Ólafsfirði í nótt til að dæla upp úr kjöllurum vegna mikilla rigninga. Flætt hefur inn í fyrirtæki í bænum, auk þess sem brunnar hafa fyllst.

„Það er búið að rigna linnulaust frá því í gærkvöldi með tilheyrandi vatnssöfnun í bænum,” segir Jóhann K. Jóhannsson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs Fjallabyggðar.

„Staðkunnugir segja að þetta sé með því mesta sem menn hafa séð,” bætir hann við um rigninguna.

Að störfum í alla nótt 

Slökkviliðsmenn hafa verið að störfum í alla nótt ásamt björgunarsveitarfólki frá Strákum á Siglufirði og Tindi í Ólafsfirði.

Að sögn Jóhanns hefur tekist að sinna öllum þeim aðstoðarbeiðnum sem hafa komið. Hann segir ómögulegt að segja til um tjónið. „Það er enn þá verið að dæla en við sjáum til hvað gerist þegar þornar,” segir hann en mögulega mun draga úr rigningunni eftir hádegi.

„Við erum í þeirri stöðu núna að skipta út þreyttum mannskap fyrir óþreyttan,” bætir hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert