Heimildamyndin Hvunndagshetjur verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF á mánudaginn, en um er að ræða fyrstu heimildamynd Magneu Bjarkar Valdimarsdóttur leikstjóra í fullri lengd. Í myndinni er sögð saga fjögurra kvenna af erlendum uppruna sem allar hafa hafa búið á Íslandi í og yfir 20 ár og starfa við umönnunar- eða þjónustustörf.
Magnea hafði áður gert styttri heimildamyndir um karakera sem lifa og hrærast í miðbæ Reykjavíkur en hún segir Hvunndagshetjur eiginlega framhald af þeirri vinnu. Konurnar sem koma fram í myndinni eru frá Bosníu, Póllandi, Tyrklandi og Jamaíku og bakrunnur þeirra því ólíkur þó vissulega eigi þær sitthvað sameiginlegt. „Þær eru fyrst og fremst ofboðslega skemmtilegir karakterar. Mig langaði að segja kvennasögur. Manneskjulegar sögur. Það er þarna sorg og gleði og allur pakkinn,“ segir Magnea um myndina.
Hugmyndin kviknaði þegar Magnea var að koma heim frá Frakklandi þar sem hún var í kvikmyndagerðarnámi. Hún átti erfitt með að lenda á Íslandi og upplifði sig hálfpartinn sem útlending í eigin landi. Hún brá því á það ráð að bjóða erlendum vinkonum til sín í kaffi og úr varð að hún valdi að segja sögu þessara fjögurra kvenna.
„Ég hef verið mikið í Frakklandi og á Spáni og er mikill ferðafíkill. Það var ekki mjög hentugt í covid. Það var því eins gott að ég hafði eitthvað að gera, eins og taka upp eitt stykki bíómynd,“ segir hún hlæjandi. „Málefnið er gott. Að gefa hópum sem fá ekki næga umfjöllun, að mínu mati, fókus á jákvæðan hátt. Þeirra karakter, lífsgleði, þrautseigju og kraft. Það sem þær hafa upplifað í lífinu. Þrátt fyrir mikinn mótbyr láta þær ekki deigan síga.“
Magnea hefur trú á að myndin höfði til breiðs hóps fólks. „Þetta eru mjög ólíkar ævisögur sem við getum öll tengt við. Það er gaman að því að karlkyns vinir mínir, bæði íslenskir og erlendir, sem eru búnir að sjá myndina og tóku þátt í myndinni, hafa verið djúpt snortnir. Þetta er ekki mynd um konur fyrir konur, þetta er mynd um manneskjur fyrir manneskjur.“
Myndin hefur verið í fjögur ár í vinnslu en covid faraldurinn var akkúrat að bresta þegar tökur voru að hefjast á síðasta ári. Ferlið tafðist því aðeins. „Við rétt náðum að fara í tökur á leikskóla þar sem tvær vinna, en svo var bara skellt í lásinn daginn eftir. Þannig þetta hefur verið slitrótt ferli fram og til baka, að taka upp,“ útskýrir hún.
Þá segir Magnea það hafa komið á óvart hvað klippiferlið var krefjandi. „Ég vildi gera mósaíkmynd. Hafa þetta á listrænum nótum. Viðmælendur eiga alltaf skilið mikla virðingu og það er mikill dans að klippa svona mynd, en þetta var skemmtilegur hausverkur.“
Hvunndagshetjur verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni RIFF á mánudaginn en verður svo sýnd áfram í Bíó Paradís.