Eftir fund almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og Veðurstofu Íslands er talið ótímabært að aflétta rýmingu á bæjunum fimm sem voru rýmdir í Útkinn í nótt.
Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, lýsti yfir hættustigi í Útkinn í nótt vegna úrkomu og skriðuhættu og er það enn í gildi.
Segir í tilkynningu frá almannavörnum að lélegt skyggni sé á svæðinu en að þyrla Landhelgisgæslunnar muni fljúga yfir svæðið um hádegið auk þess sem sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra munu mynda svæðið með flygildi.
Staðan verður endurmetin síðdegis.
Óvissustig er enn í gildi á Tröllaskaga en það flæddi inn í fjölmörg hús á Ólafsfirði í nótt.
Þá segir í tilkynningu að aðgerðir á Ólafsfirði hafi gengið vel og búið sé að ná vel utan um aðstæður á staðnum.