Gunnhildur Sif Oddsdóttir
„Við vorum sótt í nótt af björgunarsveitinni og erum öll á Húsavík núna og erum bara að bíða eftir fréttum, segir Róshildur Jónsdóttir, íbúi á bænum Rangá í Útkinn, en bærinn var rýmdur í nótt.
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýsti í nótt yfir hættustigi í Kinn og Útkinn vegna úrkomu og skriðuhættu og var tekin ákvörðun um að rýma eftirtalda bæi í Útkinn: Rangá, Ófeigsstaði, Björg, Engihlíð og Þóroddsstaði.
Einnig var lýst yfir óvissustigi á Tröllaskaga vegna úrkomu.
Róshildur segist ekki hafa áður séð jafnmikla rigningu. „Þetta var rosalega mikil rigning og í langan tíma,“ segir hún og bætir við að lækirnir hafi verið orðnir ansi miklir.
Róshildur segir að ekki sé enn vitað hversu lengi þau munu þurfa að dvelja á Húsavík. „Það er fundur núna hjá almannavörnum og við erum bara að bíða.“
Hjónin á Rangá eru með gistingu fyrir ferðamenn og voru það því fimmtán manns sem voru sótt á bæinn Rangá í nótt og flutt á Hótel Húsavík. Einhverjir íbúar í Útkinn voru þó fluttir til Akureyrar.
Íbúar Rangár voru keyrðir til Húsavíkur enda Rangá ekki orðin innlyksa vegna skriðu.
Að sögn Ásgeir Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, var þyrla Gæslunnar kölluð út í nótt og sótti hún fjóra einstaklinga í Útkinn. Þyrlan mun að ósk Aalmannavarna fara aftur í loftið upp úr hádegi og taka stöðuna.