Eggert Skúlason
Gróft mat á kostnaði við að flytja skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur er um 400 milljónir króna, að sögn framkvæmdastjóra félagsins. Þegar farið var í uppbyggingu svæðisins var það mikið verk og jarðvegsflutningar námu tuttugu þúsund rúmmetrum.
Þegar ákveðið var að setja starfsemi félagsins niður í Álfsnesi var búið að skoða sextán aðra staði en í raun var Álfsnesið eini staðurinn sem kom til greina þegar upp var staðið.
Fyrirvaralaus lokun svæðisins kom framkvæmdastjóranum mjög á óvart, en starfsleyfi félagsins er fremur nýtt, eða frá því í mars á þessu ári.
Mjög hefur verið þrengt að starfseminni og settar strangar reglur um þjónustutíma. Nú telur Guðmundur Gíslason framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur að þetta mál þurfi að leysa í eitt skipti fyrir öll. Það dugi ekki að horfa til áramóta eða vera í slíkum skammtímaaðgerðum. Ljóst er að deiliskipulag fyrir svæðið hafði ekki verið samþykkt og leiddi það til þess að starfseminni var nú lokað. Skotsvæðið var tekið í notkun árið 2007 og hefur starfsemin verið óslitin þar til nú fyrir skemmstu að henni var eins og áður segir lokað fyrirvaralaust.
Guðmundur Gíslason er gestur Dagmála í dag.