Rýmingum verður ekki aflétt í Út-Kinn í Þingeyjarsveit í kvöld og í nótt. Ákvörðunin var tekin eftir fund almannavarna, lögreglunnar á Norðurlandi eystra og veðurfræðinga.
Starfsmenn ofanflóðavaktar Veðurstofu Íslands hafa verið á svæðinu í dag og mælt og tekið út svæðið, að sögn Elínar Jónsdóttur, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Hún segir ákvörðunina koma til þar sem á að bæta í úrkomu fram eftir kvöldi.
Elín segir að ekki sé útlit fyrir áframhaldandi ofsaúrkomu en búist sé við dágóðri úrkomu núna fram eftir kvöldi og til miðnættis.
Hún segir spána gera ráð fyrir kólnandi veðri á morgun og úrkoman því líklega í formi snjókomu eða slyddu.