Ekki með næga yfirsýn á tjónið

Aurskriður hafa valdið töluverðu tjóni á vegum og náttúru í …
Aurskriður hafa valdið töluverðu tjóni á vegum og náttúru í Kinn. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Enn hafa engar skemmdir orðið á húsum í Þingeyjarsveit að sögn Hermanns Karlssonar, aðalvarðstjóra í aðgerðarstjórn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Segir hann helsta tjónið aðallega varða skemmdir á vegum, túnum og girðingu, þá sé einnig ljósleiðari farinn í sundur sem liggur í Kinnina og hafa nyrstu bæirnir misst rafmagn. Hefur þá ekkert tjón orðið á mönnum eða á bústofni.

Aðspurður kveðst Hermann ekki geta tjáð sig um hversu umfangsmiklar skemmdirnar eftir skriðurnar eru. Eigi þá eftir að koma í ljós þegar styttir upp hvers eðlis tjónið er og hversu langan tíma það mun taka að bæta úr því.

„Það er ógerningur að segja til um það. Við höfum ekki yfirsýn yfir hvers konar tjón það er sem veldur því að rafmagnið fari út. Það skiptir máli hvort það sé slit á streng eða hvort það hafi fallið staurar. Það getur verið að þetta sé eitthvað sem er auðvelt að gera við eða eitthvað sem tekur nokkra daga eða vikur.“

Segir hann nú helstu verkefni sem bíða íbúa samfélagsins vera uppgræðsla á jarðvegum og túnum, og viðgerðum á vegum.

Rýming stýrist fyrst og fremst af úrkomu 

Eins og staðan er núna er ástandið í Kinn óbreytt hvað varðar lokanir og rýmingar. Segir Hermann ákvarðanir um afléttingu á þeim fyrst og fremst stýrast af úrkomu. „Það rigndi talsvert síðustu nótt eins og var búið að spá. Síðan er þetta mat hversu mikið vatnsmagn er í fjöllunum og hvernig þau drena sig. Sum staðar er vatnssöfnun og annars staðar ekki. Það eru nokkrir þættir sem Veðurstofan er að skoða nánar til að geta gefið sem bestar upplýsingar.“

Aðspurður segir hann stöðuna þó ekki kalla á rýmingu búfé. „Menn hafa náttúrulega alltaf áhyggjur, nú er búfé á húsi þannig að ef það koma aurskriður á byggingar þá getur skapast alvarleg staða. Enn sem komið er hefur ekkert slíkt gerst.“

Stöðufundur hófst nú klukkan hálf sex þar sem staðan verður endurmetin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert