Halldór Runólfsson fyrrverandi yfirdýralæknir leggur til viðamiklar hreinsanir og niðurskurð á sauðfé til þess að sporna við riðu í Húna- og Skagahólfi, en riðusjúkdómurinn hefur greinst í fé í hólfinu með reglulegu millibili undanfarin ár.
Halldór útlistaði tillöguna í grein í bændablaðinu í síðustu viku og fjallaði RÚV um málið í kvöldfréttum í gær. Halldór segir í samtali við mbl.is afar mikilvægt að víðtæk samstaða náist um málið, enda þurfi aðgerð sem þessi að vera framkvæmd í „einu lagi“ og þurfa allir bændur á bæjum í hólfinu að taka þátt í aðgerðinni eigi hún að skila tilætluðum árangri.
Þá segir Halldór að „boltinn þarf að byrja að rúlla frá bændunum sjálfum. Þetta þarf að vinnast frá grunni og upp en ekki öfugt, til þess að allir séu á sömu blaðsíðunni“.
Aðgerðin sem Halldór mælir með er ansi yfirgripsmikil. Lóga þyrfti öllu sauðfé í hólfinu, sem skiptir einhverjum þúsundum. Unnsteinn Snorri Snorrason, verkefnastjóri hjá Bændasamtökunum, segist í samtali við mbl.is ekki viss um nákvæman fjölda fjár í umræddu hólfi en það sé á bilinu 60 til 70 þúsund.
Auk þess að lóga öllu fé þyrfti einnig að ráðast í sótthreinsun á öllum fjárhúsum auk jarðvegsskipta í námunda við þau. „Héraðsdýralæknir kæmi þá til með að meta það hverju sinni hve miklum jarðvegi þarf að skipta út,“ segir Halldór.
Hann segir einnig afar mikilvægt að vel sé staðið að sótthreinsun. Það þurfi að gera „rétt og nákvæmlega“ eigi þetta að ganga. Séu einhver fjárhús þannig á sig komin að ekki sé rökrétt að hreinsa og nota aftur verði einfaldlega að jafna þau við jörðu.
Hugmyndin er þó ekki úr lausu lofti gripin, en síðast var ráðist í sambærilega aðgerð á árunum 2003-2004 í Biskupstungum og þar áður í Héraðshólfi á níunda áratug síðustu aldar. Halldór segist hafa trú á aðgerðinni þar sem reynslan sýni fram á að hún virki. „Það eru ekki alveg liðin tuttugu ár frá aðgerðinni í Biskupstungum en það er svona viðmiðunartíminn. Svo fannst þarna eitt tilfelli af riðu í Héraðshólfi árið 1997, en það tókst að einangra það.“
Ljóst er að slík aðgerð væri dýr og flókin í framkvæmd og þarf hið opinbera að koma að málinu. „Það gildir um þetta sérstök reglugerð, svo er að sjálfsögðu svokallaður riðubótasjóður en svona aðgerð gæti samt kallað á aukafjárframlög frá ríkinu. Greiða þarf afurðatjónsbætur og svo aðstoð við að kaupa ný lömb að tveimur árum liðnum frá hreinsun.“
Halldór bendir þá einnig á mikilvægi þess að bakland sé til staðar fyrir bændur sem verða fyrir tilfinningatjóni vegna hreinsunarinnar. „Í gamla daga var þetta ekki raunin, þá áttu menn bara að bíta á jaxlinn. En það er afar mikilvægt að bændur, líkt og aðrir, geti leitað sér aðstoðar og ráðgjafar þurfi þeir þess. Enda sársaukafull aðgerð að lóga vel ræktuðu fé svo þúsundum skiptir.“