Mögulega að grynnka í skjálftunum

Skjálftavirknin á svæðinu helst stöðug.
Skjálftavirknin á svæðinu helst stöðug. Ljósmynd Egill Árni Guðnason

Engar mælanlegar breytingar eru á skjálftavirkni á svæðinu í námunda við Keili á Suðurnesjum. Enn mælast hundruð og upp í þúsundir skjálfta á dag en þeir eru þó allir á töluverðu dýpi enn. Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

„Í rauninni eru engar sjáanlegar breytingar á skjálftavirkni á svæðinu. Þeir eru enn á svona fimm til sex kílómetra dýpi.“ Lovísa segir þó einhverjar vísbendingar á lofti um að mögulega sé að grynnka á skjálftunum en þó ekki hægt að fullyrða það.

Þá segir hún einnig að ekki sé hægt með vissu að segja til um hvort um sé að ræða kvikusöfnun eða hefðbundnar flekahreyfingar en líkt og mbl.is greindi frá í morgun er talið líklegra að um kvikusöfnun sé að ræða.

Bylgjurnar enn skýrar

Spurð hve mikið þurfi að grynnka á skjálftunum til þess að viðvörunarbjöllur fari að hringja segir Lovísa: „Fyrr á árinu sáum við ris bæði frá gps og inframyndum og svo fóru skjálftarnir að grynnka. Einnig sáum við það á bylgjunum að það tók að lengjast í þeim. Sú er ekki raunin að minnsta kosti eins og staðan er núna við Keili. Við fylgjumst þó bara áfram vel með.“

Lovísa segir að haldist skjálftavirknin áfram eins og hún er í dag sé ólíklegt að vísindaráð almannavarna verði kallað til fundar fyrr en til stendur. Fundir ráðsins eru þá á tveggja vikna fresti og næsti fundur því á fimmtudaginn í næstu viku, að öllu óbreyttu.

Mælum komið fyrir í Öskju

Spurð hver staðan sé á landrisi við Öskju segir Lovísa: „Í raun er lítið nýtt af nálinni þar. Land hefur risið um tíu sentímetra. Búið er að koma fyrir nýjum mæli sem mælir risið, til stendur að koma fleirum fyrir en erfiðar aðstæður seinkuðu því.“

Hún segist spennt að sjá hvað mælarnir sýna en það verði að bíða ögn lengur. Þá bendir hún einnig á að mismunandi sé milli landsvæða hvað land þurfi að rísa mikið og hve lengi það rís áður en kvikan kemst upp á yfirborðið. 

„Í Fimmvörðuhálsgosinu var land til að mynda búið að rísa í um áratug áður en gaus, en nú fyrr á árinu sáum við þetta gerast miklu hraðar í tengslum við gosið í Geldingadölum.“ Þá segir hún kvikuna í Öskju sem veldur landrisinu enn vera á um þriggja kílómetra dýpi.

Land hefur risið um tíu sentímetra við Öskju. Nýjum mælum …
Land hefur risið um tíu sentímetra við Öskju. Nýjum mælum hefur verið komið fyrir á svæðinu. Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert