Óska eftir minnisblaði frá skrifstofu Alþingis

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Undirbúningsnefndar kjörbréfanefndar Alþingis. mbl.is/Golli

Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar Alþingis hefur óskað eftir minnisblaði frá skrifstofu Alþingis varðandi stöðu nefndarinnar og heimildir hennar í rannsókn á talningu og meðhöndlun kjörgagna í Norðvesturkjördæmi, segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar.

Upphafsfundi nefndarinnar lauk áðan en þar fór fram almenn umræða um störf hennar, réttindi og skyldur, auk þess sem stærsta verkefnið var tekið fyrir, lögmæti talningar og meðhöndlunar kjörgagna í Norðvesturkjördæmi.

Upplýsingaöflun enn í gangi

Lagðar hafa verið fram kærur vegna meðhöndlunar kjörgagna í Norðvesturkjördæmi. Þar á meðal Magnús Davíð Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu og Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sem skipaði 2. sætið hjá Samfylkingu í Reykjavík suður, hefur sömuleiðis skilað inn kæru.

Að sögn Birgis hefur nefndin nú undir höndum niðurstöður landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar ásamt hluta af þeim kærum sem borist hafa vegna málsins. Á nefndin þá von á að fá fleiri kærur inn á borð til sín. Kveðst Birgir ekki geta tjáð sig um möguleg úrslit í málinu að svo stöddu enda sé upplýsinga og gagnaöflun enn í fullum gangi.

„Við erum annars vegar að átta okkur á þeim lagalega ramma sem kosningalög og þingsköp setja um okkar starf, og hins vegar þá erum við byrjuð að ræða hvernig við sjáum fyrir okkur hvernig við högum vinnunni í framhaldinu varðandi gagnaöflun og þess háttar,“ segir Birgir.

Lög gera ráð fyrir kosningu í einu kjördæmi

Spurður hvort eðlilegt væri að kosið yrði einungis í einu kjördæmi ef niðurstaða nefndarinnar myndi kveða á um að kosningar væru nauðsynlegar, segir hann stöðu málsins ekki komna á það stig að hægt sé að ræða úrslit málsins.

„Það liggur einnig fyrir að lögin gera ráð fyrir því að ef það er ágreiningur um gildi kosninga í einhverju tilteknu kjördæmi þá getur farið fram uppkosning þar, en ekki annars staðar. En til þess þarf fyrst að leiða í ljós að það hafi verið ágallar í framkvæmd sem eru svo verulegir að það hafi áhrif á niðurstöður kosninganna,“ bætti hann þó við.

Mikilvægt að klára málið en vanda til verka

Næsti fundur nefndarinnar fer fram á miðvikudaginn en Birgir telur líklegt að fundað verði nokkuð þétt á næstu dögum til að útkljá þetta mál. Aðspurður kveðst hann ekki finna fyrir auknum þrýsting að fá niðurstöðu sem fyrst vegna ríkisstjórnarmyndunar enda telji hann það ekki hafa áhrif á hana.

„Ég álít ekki að þetta geti haft áhrif á ríkisstjórnarmyndun. Ég held að þetta séu alveg tvö aðskilin mál. Hins vegar þá segir það sig auðvitað sjálft í sambandi við okkar vinnu að þá togast tvennt á. Annars vegar mikilvægi þess að óvissu sé eytt sem fyrst. En hins vegar mikilvægi þess að það sé vandað til verka. Þannig við þurfum að finna jafnvægi þar á milli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert