Reglur ekki brotnar með myndbirtingu

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að Morgunblaðið hafi ekki brotið …
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að Morgunblaðið hafi ekki brotið siðareglur félagsins með því að birta myndir af tveimur börnum með Reykjavíkurbréfi. mbl.is/Jim Smart

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur úrskurðað að Morgunblaðið hafi ekki brotið siðareglur félagsins með því að birta myndir af tveimur börnum með Reykjavíkurbréfi sem birtist í blaðinu í júní.

Foreldrar barnanna kærðu myndbirtinguna til siðanefndar á þeim grundvelli að myndin hefði enga tengingu við skrifin en myndin var birt sem mannlífsmynd með Reykjavíkurbréfinu.

„Staðsetning hennar innan um sterkar skoðanir ritstjóra vekur hugrenningatengsl lesenda og tengir saklaus börnin við skoðanirnar, án nokkurrar vitundar þeirra eða okkar foreldranna, og án alls samráðs,“ segja kærendur.

Kærendur vísa meðal annars til viðmiða sem hefðu verið tekin saman af Barnaheillum, Umboðsmanni barna, Unicef og persónuverndarlaga.

Siðanefnd tekur ekki afstöðu til þess hvort brotið sé gegn viðmiðum samtakanna eða gegn persónuverndarlöggjöf en segir að siðareglur nefndarinnar hafi ekki verið brotnar með myndbirtingunni. „Umrædd mynd er mannlífsmynd og tekin á almenningi, þar sem fólk getur ekki ætlast til þess að friðhelgi ríki,“ segir í úrskurðinum.

Morgunblaðið hefur hins vegar fjarlægt myndina úr myndasafni blaðsins vegna athugasemda kærenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert