„Þetta var bæjarprýði þetta fjall“

Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum. Úr myndasafni.
Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum. Úr myndasafni. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Jóna Björg Hlöðversdóttir, bóndi á Björgum í Útkinn, segir ekki hægt að meta það tjón sem hefur orðið á landi þeirra vegna aurskriða til fjár. Telur hún ásýnd bæjarstæðisins gjörbreytta.

Jóna og fjölskylda hennar þurftu að rýma bæinn í fyrri nótt vegna aurskriða og þurfti þá þyrlu til en fjölskyldan varð innlyksa vegna aurskriða sem höfðu fallið á veginn. Björg er einn af þeim bæjum í Þingeyjarsveit sem hafa orðið fyrir hvað mestu tjóni. 

„Hvernig leggur maður fjárhagslegt mat á fallega fjallshlíð? Þetta var bæjarprýði þetta fjall og það var skógrækt þarna og lúpína sem öllum þótti vænt um. Okkur þykir leiðinlegt að sjá svona fara fyrir því. Auðvitað er ekki hægt að reikna verðmæti eins og hægt er að gera með ræktunarland. Þetta er tjón á fallegri náttúru.“

Aurskriður í fjallshlíðum í Útkinn.
Aurskriður í fjallshlíðum í Útkinn. Hafþór Hreiðarsson

Bærinn tilheyrt fjölskyldunni í fimm ættliði

Að sögn Jónu Bjargar hefur bærinn tilheyrt fjölskyldur þeirra í fimm ættliði. Séu skemmdir á fjallshlíðum og bæjarásýnd því ákveðið tilfinningalegt tjón.

„Við erum hérna fæddar og uppaldar systurnar og okkur þykir vænt um bæinn okkar. [...] Við erum fimmtu kynslóðar bændur þannig þetta er mikið ættaróðal. Það hefur alltaf verið vinsælt að koma í Björg og sækja okkur heim og mörgum sem þykir mjög vænt um þennan bæ.“

Jóna Björg telur að ekki sé hægt að meta tjónið …
Jóna Björg telur að ekki sé hægt að meta tjónið á fjallshlíðum til fjár. Hafþór Hreiðarsson

Dýrin óhult

Í morgun fóru systir hennar og mágur, þau Þóra Magnea Hlöðversdóttir og Arnór Orri Hermannsson, í fylgd með björgunarsveit til að annast mjaltir. Að sögn Jónu Bjargar ætti ferðin frá Húsavík að Björgum ekki að taka nema hálftíma. Hins vegar hafi ferðin í morgun tekið allt að tvöfalt ef ekki þrefalt lengri tíma en vanalega.

„Þetta er náttúrulega mikið bras. Torvelt færi, mikil bleyta og vatn alls staðar. Það hafa fallið aurskriður yfir vegi og svo var líka farið að flæða yfir veginn því það var svo mikið vatn.“

Að sögn Jónu hafa þau ekki miklar áhyggjur af dýrunum á bænum og telur hún þau óhult. „Við höfum ekki áhyggjur af þeim á meðan kýrnar eru á húsi og við fáum að komast til þeirra. Þá held ég að það eigi að vera allt í lagi með þær. En það er auðvitað ekki gott að vera svona í burtu en við skiljum vel að það sé metið að það sé ekki óhætt fyrir okkur að vera þarna.“

Á Björgum eru einnig kindur sem eru ekki komnar á hús en Jóna Björg segir þær þó á öruggum stað. „Þær eru á vísum stað þar sem vatnavextir hafa ekki haft áhrif og skriðurnar ekki komið nálægt. Við kíkjum alltaf á þær, þær eru með stórt hólf sem er fjærst fjallinu á jörðinni.“

Mörg tún eru nú á floti vegna mikilla vatnavaxta.
Mörg tún eru nú á floti vegna mikilla vatnavaxta. Hafþór Hreiðarsson

Uppáhalds túnin urðu undir

Spurð út í næstu skref segir hún það enn óljóst. Það eina sem er víst er að það er mikil vinna fram undan. „Það þarf einhvern veginn að ryðja leðjunni og drullunni af túnum. Svo þarf að moka upp úr þeim skurðum sem hafa fyllst og hreinsa. Það hefur rosalega mikið farið af stað. Svo er spurning hvernig maður tekst á við fjallið.“

Vonast hún eftir því að hægt verði að koma túnunum í ræktun næsta vor eða sumar, enda hafi túnin sem lentu undir verið í eftirlæti. „Þetta eru kannski svona helstu túnin okkar, ef maður getið valið uppáhalds tún þá eru þetta þau. Það er svo auðvelt að umgangast þau og komast að þeim, þannig það er til mikils að vinna. Til þess að þetta gangi upp þá þyrftum við helst að vera með skurðgröfur, jarðýtur, sturtuvagna, dráttarvélar og mannskap til að vinna þetta. Ef það er færi og tíð þá gerum við það.“-

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert