Auglýsing frá Cromwell Rugs sem fylgdi Morgunblaðinu nú á laugardag hefur vakið töluverða athygli. Fyrirtækið sem sérhæfir sig í sölu á persneskum teppum auglýsti á fjórum blaðsíðum „krísu-útrýmingarsölu“ á umræddum teppum. Þar mátti til að mynda finna teppi auglýst á tilboðsverðinu 119.500 krónur en áður hafði það kostað 569.500 krónur. Margir ráku upp stór augu vegna þessa og sköpuðust umræður á facebookhópnum „Markaðsnördar“ um málið. Þar efuðust margir um lögmæti tilboðsins.
Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu, sagði í samtali við blaðamann nú í gær að farið yrði strax í málið í dag. „Þá munum við taka ákvörðun um hvort það sé tilefni til frekari aðgerða af okkar hálfu,“ sagði Þórunn. Hún segir merg málsins í raun vera þann að Cromwell Rugs þurfi að geta sýnt fram á að „þetta sé raunverulega fyrra verð“.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, tók í svipaðan streng og Þórunn. „Það er ansi skýrt að ekki megi auglýsa afslátt hafi varan ekki verið seld á fyrra verði,“ sagði Breki í samtali við blaðamann. Hann sagði þó einnig að sennilegast væri um að ræða einhvers konar mistök.
Alan Talib, umræddur teppasali og eigandi Cromwell Rugs, sagði í samtali við blaðamann í gær að teppin hefðu svo sannarlega verið seld á upprunalegu verði og kvaðst hann ekki hafa áhyggjur af því að sýna fram á að sú væri raunin.