Álag á heilsugæslustöðvum borgarinnar hefur aukist til muna að sögn Óskars Reykdalssonar, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Það er óvenjulega mikið að gera á vöktum miðað við árstíma en það er erfitt að segja hvað veldur því,“ segir Óskar.
Þetta kann að skýrast af því að fjöldi fólks leitar nú á stöðvarnar vegna kvefeinkenna en Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að nú sé runninn upp tími haustpestanna. „Við erum farin að sjá haustpestir. Það er töluvert um hefðbundnar loftvegasýkingar, kvef og hósta.“
Breskir miðlar hafa fjallað um svokallað ofurkvef (e. supercold) sem hefur gert vart við sig þar í landi. Segir í grein Telegraph að eftir átján mánaða tímabil takmarkana hafi landsmenn ekki komist í tæri við sama magn sýkla og vant er, sem valdi því að kvefpestir leggjast harðar á ónæmiskerfið.
Sigríður segist ekki kannast við að ofurkvefpestir gangi manna á milli hér á landi, hins vegar sé líklegra að menn smitist af pestum nú þegar daglegt líf er að færast í eðlilegt horf eftir faraldurinn og létt er á samkomutakmörkunum.