Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, segir nú stórt verkefni bíða sveitarstjórnar og íbúa á svæðinu í ljósi þeirra skemmda sem hafa orðið vegna aurskriða og úrkomu í sveitarfélaginu.
„Þarna eru skemmdir á vegum og túnum, girðingar eru farnar, rafmagn og ljósleiðari. Þetta er töluvert tjón þó að það hafi ekki farið skriður á íbúðarhús svo ég viti.“
Fjöldi bæja var rýmdur í Þingeyjarsveit í Kinn og Útkinn í gær vegna skriðuhættu en mikil úrkoma hefur verið fyrir norðan. Segjast bændur í sveitinni ekki muna eftir annarri eins rigningu. Þá hefur flætt inn í fjölda húsa í Ólafsfirði.
Dagbjört bíður nú eftir því að fá frekari upplýsingar frá almannavörnum um hvernig málin standa eftir nóttina og segir hún sveitarstjórnina enn vera að ná áttum varðandi næstu skref. „Þetta er bara svo nýskeð og kannski ekki einu sinni búið. [...] Það féllu allavega tvær skriður í morgun, það er það eina sem ég veit.“
Hún kveðst búin að kalla eftir samtali við yfirvöld og segir ljóst að standa þurfi við bakið á bændum. „Ég hef kallað eftir því að fá upplýsingar um það hvernig við stöndum að því. Byggja þetta aftur upp eða laga þessa hluti.“