Tugir kílómetra af utanvegaakstri í haust

För eftir utanvegaakstur eru víða að Fjallabaki, en Hákon segir …
För eftir utanvegaakstur eru víða að Fjallabaki, en Hákon segir að ferðamenn á illa búnum bílum keyri gjarnan utanvegar eftir að fyrsti snjórinn sest í niðurgrafna vegi. Ljósmynd/Hákon Ásgeirsson

Þegar fyrst snjóar á hálendinu ár hver festir hann helst í vegum sem eru oft á tíðum niðurgrafnir. Freistast ferðamenn á illa útbúnum bíla til þess að aka út fyrir vegina til að komast leiða sinna, en slíkt er utanvegaakstur sem jafnvel getur leitt til fara sem sjást í mörg ár og jafnvel áratugi.

Þegar landverðir á vegum Umhverfisstofnunar voru á ferð um Fjallabak nú í lok september blasti við þeim mikill utanvegaakstur af þessum sökum. Hákon Ásgeirsson, teymisstjóri á sviði náttúru, hafs og vatns hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við mbl.is að fljótlega þegar komið var upp í hæð þar sem snjó byrji að festa sjáist mikil ummerki um utanvegaakstur.

„Þetta eru einhverjir tugir kílómetra sem er verið að keyra utanvegar,“ segir hann. Munurinn á þessum utanvegaakstir og öðrum er þó að í þessu tilfelli er aðallega keyrt samhliða núverandi vegi.  Hákon segir slíkt þó ekki síður slæmt, enda á mörgum stöðum gróðurþekja sem skemmist og taki langan tíma að ná sér aftur. Hann segir mestar skemmdir vera á Sigölduleið, en einnig á Landmannaleið.

Ástæðan fyrir þessum utanvegaakstri er að sögn Hákons aðallega ferðamenn sem séu að reyna að komast inn í Landmannalaugar þrátt fyrir að vegurinn hafi verið merktur ófær. „Það verður alveg holskefla í utanvegaakstri,“ segir hann um það þegar fyrsti snjórinn kemur. „Þá eru bílaleigubílar enn á sumardekkjum og mest jepplingar.“ Segir Hákon að þeir séu illa búnir að keyra í snjóförum og því freistist þeir til að fara upp úr veginum.

Landvarsla er til staðar að Fjallabaki yfir sumartímann og út ágúst, en eftir það segir Hákon að það dragi verulega úr henni. Því nái landverðir illa að fylgjast með eða bregðast við þessu ástandi þegar byrji að snjóa í september. „Það þyrfti að bæta landvörsluna inn í haustið,“ segir hann.

Síðustu daga hefur snjóað nokkuð meira á Fjallabaki og Hákon segir að þá batni ástandið strax því ferðamenn hætti þá jafnan við að reyna að komast inn í Landmannalaugar ef þeir meta aðstæður strax þannig að illfært sé inneftir og ófært fyrir jepplinga.

Utanvegaför sem þessi þýða að sögn Hákons að landverðir þurfa að byrja næsta vor að laga ummerkin. Eftir leysingar og lokanir á hálendinu næsta vor þegar Vegagerðin undirbýr að opna fyrir umferð munu landverðir raka í hjólför, fylla upp í förin og setja upp skilti. „Það verður ekki hleypt á umferð fyrr en það hefur verið gert,“ segir hann og tekur fram að þetta hafi verið vandamál undanfarin ár.

Mestu skemmdirnar eru að sögn Hákons á Sigölduleið. Búast má …
Mestu skemmdirnar eru að sögn Hákons á Sigölduleið. Búast má við því að för í gróðurþekju taki ár og jafnvel áratugi að hverfa alveg. Ljósmynd/Hákon Ásgeirsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert