Áframhaldandi rigning er í kortunum á Austurlandi og Norðurlandi í vikunni, að því er Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, greinir frá í samtali við mbl.is. Fjölda fólks hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í Út-Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu og á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum í kjölfar mikilla rigninga síðastliðna daga.
Elín segir spána gera ráð fyrir lítilli úrkomu á Austurlandi og Norðurlandi eystra í dag. Á morgun eigi þó að þykkna upp suðaustan til og þá gæti rignt talsvert á Austfjörðum á fimmtudag, sérstaklega seinnipartinn og fram á föstudag.
„Þá gæti rignt aðeins í Kinn en það eru aðeins öðruvísi aðstæður en hafa verið síðustu daga. Þá verður vindáttin alveg austlæg en ekki norðlæg eins og hún hefur verið. Það er öðruvísi lyfting og ólíklegt að það verði jafn mikið úrhelli.“
Vísindaráð almannavarna mun funda um rýmingarnar á Norðurlandi kl. 13 í dag.
Hættustigi almannavarna var lýst yfir vegna hættu á skriðuföllum á Seyðisfirði í gær en frá því á sunnudag hafa mælst hreyfingar á fleka sem liggur milli skriðusársins frá 2020 og Búðarár. Auk þess er spáð úrkomu á svæðinu þegar nær dregur helgi. Utan þess svæðis hafa hreyfingar ekki mælst.