Unnur Freyja Víðisdóttir
Engar tilkynningar hafa borist um aurskriður á Seyðisfirði en vel er fylgst með hreyfingum á fleka sem liggur milli skriðusársins frá 2020 og Búðarár. Þetta segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn á Austurlandi, í samtali við mbl.is.
Hættustig almannavarna er í gildi vegna hættu á skriðuföllum á Seyðisfirði og í Kinn og Útkinn í Þingeyjarsveit. Í ljósi þess hefur fjöldi húsa verið rýmd á þessum svæðum síðastliðna daga.
„Frá því að rýming er ákveðin hefur ástandið haldist óbreytt hvað það varðar en það er fylgst mjög vel með öllum mælum áfram.“
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Austurlandi ákvað að lýsa yfir hættustigi almannavarna á Seyðisfirði vegna hættu á skriðuföllum í gær og verður rýmingin í gildi fram yfir helgi, í það minnsta. Ekki hefur þurft að rýma fleiri hús síðan þá, segir Kristján inntur eftir því.
Hann segir að fréttatilkynning um stöðu mála verði send út fyrir hádegi í dag eftir fund með Veðurstofu og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.