Felldu tillögu um útboð stafrænnar uppbyggingar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að allir verkþættir á fyrirhugaðri upp­bygg­ingu borg­ar­inn­ar á sta­f­ræn­um innviðum verði boðnir út var felld á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag. Borgin hefur áætlað að úthluta ríflega 10 milljörðum í þessa uppbyggingu á næstu þremur árum.

Umræða um tillöguna hófst klukkan 15 í dag og stóð yfir í tvær og hálfa klukkustund.

Verkefnið stangist á við markmið borgarinnar

Katrín Atladóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði í umræðum um tillöguna að sannarlega væri skortur á betri stafrænum innviðum hjá borginni og sagði alla þá sem hefðu notað þá vita það. Hún bendir þó að ráðning um 60 sérfræðinga kunni að hafa slæm áhrif á hugbúnaðarfyrirtæki í borginni:

„Þessir aðilar sem er verið að ráða eru starfandi hjá hugbúnaðarhúsum í borginni og eru af skornum skammti. Hvað haldið þið að séu til margir færir stafrænir leiðtogar á landinu? Hvað ætli það séu margir færir upplifunar- eða viðmótshönnuðir?“

Katrínu þykir verkefnið þannig stangast á við markmið borgarinnar „um að vera aðlaðandi fyrir fyrirtæki og blómlega nýsköpun. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við erum að ræða þessi mál.“

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins benda í greinargerð á verkefnið Stafrænt Ísland sem sé  „stórt átaksverkefni ríkisins þar sem allir verkþættir hafa verið boðnir út og engin innvistun átt sér stað. Lagt er til að Reykjavíkurborg líti til þess verkefnis sem fyrirmyndar og fylgi aðferðarfræðinni hjá Stafrænu Íslandi.“

Engin ein töfralausn

Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata hafnar þessum samanburði við Stafrænt Ísland sem hún segir þó vera að gera frábæra hluti: „Ríkið er ekki með miðlæga stjórn á sínu upplýsingatækniumboði. Það sem borgin hefur staðið sig vel í er að ná þessu á einn miðlægan stað. Þau hjá ríkinu eru með þetta dreift.“

Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingarinnar bendir á að stafræna uppbyggingin sé löngu hafin: „Við heyrum hér aftur og aftur að útboð séu einhver töfralausn. Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi er þegar búin að benda á að 7,7 milljarðar fari í opinbera innkaupaferli. Innkaupaferlar eru meira en útboð á öllu saman, hér gengur einfaldlega ekki ein töfralausn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert