Enn mælist hreyfing á flekanum sem liggur milli skriðusársins á Seyðisfirði frá desember 2020 og Búðarár. Talsverðri úrkomu er spáð á svæðinu þegar nær dregur helgi. Rýming mun því vara fram yfir helgi.
Níu hús voru rýmd í gær vegna þessa og nítján manns yfirgáfu þá heimili sín. Rýming gekk vel og allir fengu húsaskjól, að því er segir í tilkynningu frá almannavörnum.
„Herðubreið verður opin milli klukkan 14 og 17 í dag. Íbúar í húsum á rýmingarsvæðum eru sérstaklega hvattir til að mæta og geta þá fengið aðstoð við að fara að og huga að húsum sínum hafi þeir hug til þess.
Fulltrúar Rauða krossins verða í Herðubreið. Allir velkomnir. Minnt er á hjálparsíma Rauða krosssins í síma 1717,“ segir enn fremur.