Athuga átti nú í morgunsárið hvort fólki yrði aftur heimilt að snúa til síns heima á bæjum í Út-Kinn í Suður-Þingeyjarsýslu, en svæðið var rýmt aðfaranótt sunnudags vegna framhlaups úr fjöllum í úrkomu sem líkja má við skýfall.
Alls hafa um tuttugu skriður og spýjur fallið úr fjallshlíðinni á þessum slóðum; ein um það bil einn kílómetri á breidd. Víða hafa skriður fallið nokkrar á sama stað, svo að í hlíðum og brekkum er þykkt aurlag sem nær niður á láglendi og yfir vegi og tún.
„Rigningin var mikil og fjallshlíðarnar í Út-Kinn eru vatnsósa, svo að líkja má þeim við blautan svamp. Við förum því að öllu með gát og bíðum eftir upplýsingum vísindamanna sem kanna aðstæður,“ segir Hreiðar Hreiðarsson hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, varðstjóri á Húsavík, í samtali við Morgunblaðið.
Í Út-Kinn þurfti fólk á bæjunum Björgum, Nípá, Geirbjarnarstöðum, Engihlíð og Ófeigsstöðum að fara að heiman í varúðarskyni seint á laugardagskvöldið – og um nóttina sem þá fór í hönd. Á sunnudagskvöldið var svo ákveðið rýma bæi sunnar í Kinninni, það er Torfunes, Háls, Kvíaból, Arnþórsgerði, Hnjúk og Hrafnsgerði.
Alls um 50 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín í þessum aðgerðum, sem eru fordæmalausar. Vegna þessa er þjóðvegurinn til og frá Húsavík um Kinn lokaður og umferð beint um Fljótsheiði og Aðaldal.
Björgunarsveitarmenn frá Húsavík og úr Aðaldal aðstoðuðu bændur í Kinn við að komast til gegninga í gær. Torfært er að bæjum. Að Björgum sem er nyrst og yst í Kinn var aðeins fært um tún og utanvega á bökkum Skjálfandafljóts, sem þarna fellur fram. Austan fljóts, við bæina Húsabakka og Sand, voru vísindamenn sem fylgdust með framvindu. Notuðu til þess dróna sem flogið var að fjöllum en þannig má afla myndefnis til að meta aðstæður og áhættu.
„Að skriður féllu á þessum slóðum var ekki í neinum viðbragðsáætlunum sem fyrir lágu. Þetta kom flestum á óvart og fólk er í áfalli. Allir eru þó þakklátir fyrir þá hjálp sem er veitt og öllum leiðbeiningum og skipunum er tekið vel,“ segir Hreiðar Hreiðarsson.