Þórarinn Eldjárn hefur verið afar afkastamikill rithöfundur og þýðandi á undanförnum árum og áratugum. Hann var gestur Ragnheiðar Birgisdóttur í Dagmálum og sagði meðal annars frá nýju smásagnasafni sem ber titilinn Umfjöllun.
Þórarinn hefur lengi haft ritstörfin sem sitt aðalstarf og þykir það fráleit hugmynd að rithöfundur hætti að vinna, það væri eitthvað sorglegt við það.
Þegar hann vanti innblástur leiti hann í ljóð eftir ónefnd skáld sem hann kallar startara. Þau kveiki hjá honum hugmyndir.
„Þetta sem kallað er ritstífla sem margir höfundar lýsa og sumir eru mjög óttaslegnir við, ég þekki það ekki. Nema kannski á þann hátt að ég hafi alltaf verið með ritstíflu og aldrei þótt þetta auðvelt,“ segir Þórarinn.
Galdurinn við yrkingar á háttbundnu formi sé að allt líti út eins og það hafi orðið til af sjálfu sér. „Það hefur stundum verið sagt við mig og um mig að þetta sé ekki merkilegt því málið yrkir sjálft. Það er þá af því eitthvað rennur voðalega létt en á bak við slíkt eru oft hræðilegar pælingar, útstrikanir og breytingar.
Ef maður myndi hleypa fólki inn á verkstæðið kæmi ýmislegt í ljós sem mörgum myndi bregða við að sjá. Því oft eru miklar þrautir og raunir á bak við það sem lítur sléttast og felldast út.“