Lýsa upp Búðarána til að fylgjast með svæðinu

Ljósmynd/Björgunarsveitin Ísólfur

Búið er að koma fyrir ljósamastri til að lýsa upp Búðarána á Seyðisfirði til að fylgjast grannt með skriðuhættu. Davíð Kristinsson, varaformaður björgunarsveitarinnar á Seyðisfirði, segir að verið sé að fylgjast með hvort eitthvað komi niður með ánni eða að hún stíflist. 

„Það er stór vísbending að það sé einhver hreyfing sem á ekki að vera ef hún t.d. stíflast. Því er búið að lýsa upp hlíðina,“ segir Davíð.

Hann segir að fólk sé aðeins farið að róast en það sé enn á varðbergi gagnvart fjallinu eftir skriðurnar í desember 2020. Það veiti þó öryggi að vita að verið sé að fylgjast vel með.

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði greindi frá því á facebooksíðu sinni að búið væri að lýsa upp hlíðina og birti myndir af uppátækinu.

Bæjarbúar hjálpa þeim sem þurftu að rýma heimili sín

Davíð segir að bæjarbúar hafi hjálpað þeim sem þurftu að yfirgefa heimili sín vegna rýminga í kvöld en húsin sem eru rýmd núna í bænum eru á sama stað og skriðan féll í desember.

Það er ekki vitað hvað þetta gæti verið lengi, það er talað um viku hugsanlega, þannig að  fólki finnst þetta mjög óþægilegt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert