Borgarráð mun skipa formlega nefnd í næstu viku sem mun rannsaka starfsemi vöggustofa í Reykjavík sem voru starfræktar á árunum 1949-1973.
Þetta kom fram á fundi sem Þorsteinn Gunnarsson borgarritari átti í síðustu viku með fimmenningunum sem staðið hafa fyrir því að rannsókn á málinu verði tekin upp.
„Borgin er búin að tryggja fjármagn í rannsóknina og talaði um að það yrðu þrír sem myndu stýra henni. Lögfræðingur, sálfræðingur sem yrði líklega sérhæfður í tengslamyndun hjá börnum og sagnfræðingur. Svo er búið að tryggja fé til þess að kaupa sérfræði aðstoð eftir þörfum,“ segir Árni H. Kristjánsson sagnfræðingur í samtali við mbl.is.
Árni er einn þeirra fimm manna sem gengu á fund borgarstjóra júlí síðastliðnum og fór fram á að starfsemi vöggustofa í borginni yrðir rannsökuð í ljósi ómannúðlegra starfshátta. Í greinargerð sem þeir sendu til borgarstjórnar kemur meðal annars eftirfarandi fram:
„Á Hlíðarenda og síðar Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins var skipulag starfseminnar vélrænt og örvun á vitsmuna- og tilfinningaþroska barnanna var ekki á dagskrá. Á honum voru þrír stórir gluggar og í gegnum þá var hægt að fylgjast með börnunum í berstrípuðum, sótthreinsuðum og upplýstum herbergjum. Þar voru þau látin liggja í rimlarúmum án örvunar því starfsfólki var forboðið að snerta eða tala við þau að nauðsynjalausu.“
Að sögn Árna er málið nú komið lengra en fimmmenningarnir áttu von á. Nú þegar hefur borgarritari fengið forgreiningu hjá Borgarskjalasafni til að kanna þau gögn sem eru til staðar en þau liggja nokkuð víða. „Það er búið að forgreina hvaða heimildir eru til, það er grundvöllur rannsóknarinnar.“
Frá því að málið fór að verða áberandi í fjölmiðlum í sumar hafa fjöldinn allur af frásögnum af safnast saman á Facebook hópnum Réttlæti sem var stofnaður sem vettvangur fyrir einstaklinga sem voru á vöggustofum Reykjavíkurborgar og aðstandenda þeirra.
Spurður hvort hann hafi búist við þessum viðbrögðum meðal fólks, segir Árni það mest koma sér á óvart hversu margir séu búnir að hafa persónulega samband við hann.
„Það er bláókunnugt fólk sem hefur verið að hringja. Margir vilja helst ekki koma fram með þetta opinberlega. Þetta eru viðkvæm mál, það er staðreynd að fólk sem ættleiddi börn eða tók í fóstur sneri blinda auganu að því að þarna voru ungar og ógiftar mæður sem voru sviptar börnum sínum fyrir það eitt að vera illa staddar félagslega. Þessar stúlkur voru beittar þrýstingi af forstöðukonum vöggustofunnar sem voru yfirleitt í barnaverndarnefnd.
Spurður hvort fyrrum starfsfólk vöggustofanna hafi sett sig í samband við þá fimm svara hann því játandi.
„Flestar þessar stúlkur sem unnu þarna á sínum tíma skammast sín alveg óheyrilega. Þeim fannst starfshættirnir mjög skrítnir, enda er þetta óeðlilegt að það megi ekki sinna grátandi börnum. Læknar sögðu að svona ætti þetta að vera og þær hlýddu þó að – eins og ein orðaði það – að hver fruma í sér öskraði að þetta væri rangt. Þær vilja helst ekki koma fram, ekki undir nafni. Þær hafa samt haft samband og lýst þessu hvernig þetta var. Það var mikil starfsmannavelta því þær entust ekki í þessu.“
Kveðst hann nú bíða spenntur eftir því að nefndin taki til starfa enda ætti ekkert að koma í veg fyrir að það gerist nú fljótlega. Hann segist þó meðvitaður um að skriffinnska geti vissulega dregið svona mál á langinn. „En við sjáum ekki annað en að það sé hægt að skipa nefndina og hún geti hafið störf,“ segir hann að endingu.