Búið er að aflétta rýmingu í Út-Kinn í Þingeyjarsveit og er íbúum því heimilt að halda heim til sín á ný. Þetta kemur fram í tilkynningu frá almannavörnum.
Hættustig er þó enn í gildi á svæðinu en skilgreining þess er að heilsu og öryggi manna, umhverfis eða byggðar er ógnað af náttúru- eða mannavöldum, þó ekki svo alvarlega að um neyðarástand sé að ræða.
Í tilkynningunni kemur fram að sérfræðingar Veðurstofu hafa skoðað aðstæður á svæðinu í dag og ljóst að verulega hefur dregið úr skriðuhættu. Vegurinn um Út-Kinn er þó enn lokaður fyrir almennri umferð enda hætta á að blautur jarðvegur renni inn á veginn.
Fram kemur í tilkynningu almannavarna að íbúum er ráðið frá því að fara um veginn í myrkri og munu fá fylgd björgunarsveita heim til sín kjósi þeir að snúa til síns heima í kvöld.