Segir ópíóíðafaraldur á Íslandi ekki í rénun

Ávísun ópíóða jókst hér á landi um 17,2% á árunum …
Ávísun ópíóða jókst hér á landi um 17,2% á árunum 2008-2017. AFP

Ávísun ópíóíða jókst um 17,2% hér á landi á árunum 2008-2017 hér á landi. Hlutfallslega var aukningin mest í aldurshópnum 90 ára og eldri en hlutfallslega fjölgaði notendum ópíóíða mest í aldursflokknum 30-39 ára.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Sigríðar Óladóttur og fleiri vísindamanna, sem birtist í Læknablaðinu í dag.

Í leiðara Læknablaðsins skrifar Andrés Magnússon fíknilæknir að ópíóíðafaraldurinn hér á landi sé þannig ekki í rénun og vísar til rannsóknarinnar.

Andrés rekur hvernig ópíóíðafaraldurinn skók bandarískt samfélag á síðustu árum og bendir á að framleiðendur slíkra lyfja hafi verið um að kenna að um hálf milljón manni hafi látist af ofneyslu ópíóíða.

Strax á eftir skrifar hann: „Nú þurfa Íslendingar að gyrða sig í brók svo að hið sama verði ekki upp á teningnum á Íslandi, sérstaklega þar sem langflestar ávísanir lækna á ópíóíða á Íslandi eru utan ábendinga. Þar ber læknirinn aukna ábyrgð.”

Andrés Magnússon fíknilæknir.
Andrés Magnússon fíknilæknir. Ljósmynd/Læknablaðið

Aukning vímuefna aukist

Andrés segir að aukning á notkun ópíóíða sé aðeins hluti af stærri mynd sem sýni aukna notkun á alls kyns tegundum ávanabindandi efna. Segir hann að aukning hafi verið í öllum þremur flokkum þar að lútandi; ólöglegum vímuefnum, ávanabindandi lyfjum og áfengi.

„Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á að ópíóíðar eru afar léleg lyf við langvinnum verkjum, svo sem bakverkjum, þótt þeim sé sennilega langmest ávísað við slíkum kvillum. En því má aldrei gleyma að ópíóíðar eru frábær lyf í bráðaaðstæðum og þegar hilla fer undir lífslok. Aðeins 5% ópíóíða er ávísað vegna krabbameinsverkja,“ segir Andrés.

Andrés segir þó að gleðifréttir að einhverjar úrbætur hafi verið gerðar í málaflokknum á síðustu árum hér á landi, þó svo að betur mætti gera, eins og hann útskýrir. Þannig segir hann að tekið hafi gildi ný umferðarlög, sem heimila að settar verði reglur um akstur undir áhrifum lyfja eins og parkódín og parkódín forte, algengustu ópíóíðalyfjum hér á landi.

Faraldurinn ekki í rénun

Betur má þó ef duga skal, eins og Andrés rekur í leiðara sínum, en andlátum vegna notkunar ópíóíðalyfja hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Hann fagnar því nýbirtri rannsókn sem sýni svart á hvítu að ópíóíðafaraldurinn sé ekki í rénun hér á landi.

„Árin 2011-2013 voru 7-10 andlát á ári á Íslandi vegna ofskammta ópíóíða en 2018 til 2020 voru þau orðin að meðaltali 17,3 á ári. Þessar tölur renna enn frekari stoðum undir niðurstöður Sigríðar og félaga um að ópíóíðafaraldurinn sé alls ekki í rénun á Íslandi. Það er öfugt við það sem hefur gerst til dæmis í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem viðsnúningur varð fyrir um það bil 5 árum síðan. Það er lofsvert að Sigríður og félagar hafi notað þá vönduðu skráningu og gagnagrunna sem til eru á Íslandi til þess að vekja athygli á þessum skaðvaldi sem ekki hefur tekist að koma böndum á hér á landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert