Skriðuhætta minni en áfram hættustig

Vegurinn um Kinn hefur verið opnaður fyrir almennri umferð og …
Vegurinn um Kinn hefur verið opnaður fyrir almennri umferð og stefnir vegagerðin að því að ryðja aur af vegi í Útkinn í dag. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Samkvæmt mati sérfræðinga verðurstofu hefur verulega dregið úr skriðuhættu á syðra svæði rýmingarinnar í Kinn og er ástandið þar orðið skaplegt.

Í tilkynningu frá almannavörnum segir að ákveðið hefur verið að aflétta rýmingu á syðra svæðinu sem nær frá og með Ófeigsstöðum og Rangá í norðri að Hrafnsstöðum í suðri.

Vatn í hlíðum hefur minnkað mikið síðan á sunnudag þrátt fyrir rigninguna í gær. Þá hafa engar skriður fallið á þessu svæði í hrinunni og talið er að skriðuhætta sé orðin lítil.

Óvissustigi á Tröllaskaga aflétt

Á ytra svæðinu þar sem bæirnir norðan við Ófeigsstaði og Rangá standa í Útkinn hefur ástandið líka lagast og segir í tilkynningu að ekki hefur frést af neinum nýjum skriðuföllum í rúman sólarhring.

Lækir eru enn í skriðusárum en þeir hafa minnkað. Skriðuhætta er talin hafa minnkað mikið en þó segir að ástæða sé til að fylgjast með stöðunni fram eftir degi áður en rýmingu verður aflétt á nyrðra svæðinu.

Hættustig almannavarna er áfram í gildi á svæðinu en óvissustigi á Tröllaskaga hefur verið aflétt.  

Vegurinn um Kinn hefur verið opnaður fyrir almennri umferð og stefnir vegagerðin að því að ryðja aur af vegi í Útkinn í dag. Síðdegis munu almannarvarnir halda stöðufund með Veðurstofu Íslands og kannað hvort öruggt verði að aflétta rýmingu í Útkinn.

Veðurspáin gerir ráð fyrir austanhvassviðri á fimmtudag og þá gæti rignt hressilega, sérstaklega á nyrðra svæðinu. Viðbragðsaðilar munu áfram fylgjast með veðurspánni og taka afstöðu til þess hvaða áhrif hún hefur á skriðuhættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert