Stór fleki við Búðará kominn á hreyfingu

Stór fleki í jaðri skriðusársins við Búðará er kominn á …
Stór fleki í jaðri skriðusársins við Búðará er kominn á hreyfingu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ísólfur

Stóri fleki í jaðri skriðusársins við Búðará hefur verið á hreyfingu frá því á laugardag. Frá þessu er greint í færslu á facebooksíðu Veðurstofu Íslands í dag. Um er að ræða fleka sem varð eftir þegar stóra skriðan féll á þessu svæði í desember síðastliðnum, að sögn Estherar Hlíðar Jensen, ofanflóðasérfæðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Það eru tveir speglar staðsettir á þessum fleka og við höfum verið að mæla staðsetningu þeirra á hálftíma fresti. Út frá þessum mælingum höfum við séð hreyfingu á speglunum. Hreyfingin er lítil en nógu mikil til að mælitækin okkar nemi hana.“

Rík­is­lög­reglu­stjóri lýsti í gær, í sam­ráði við lög­reglu­stjór­ann á Aust­ur­landi, yfir hættu­stigi almanna­varna á Seyðis­firði vegna hættu á skriðuföll­um og var fjöldi húsa á svæðinu rýmdur í kjölfarið.

Litlar líkur eru þó á að flekinn fari af stað í dag, segir Esther innt eftir því. Vatnsstaða í borholum sem einnig eru í hlíðinni hafi farið lækkandi frá því í gær sem dragi úr líkunum á að flekinn fari af stað.

„Hins vegar er von á mikilli úrkomu í vikunni og þá þurfum við að rýna mjög vel í stöðuna,“ segir hún að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert