Ökumaður mældist á 166 km hraða á klukkustund á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Hann var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða og bíður hans sekt að upphæð 250 þúsund krónur.
Annar ökumaður mældist á 151 km hraða og tveir til viðbótar óku yfir 130 þegar lögregla hafði afskipti af þeim. Annar hinna síðastnefndu er aðeins 17 ára.
Þá voru fáeinir teknir úr umferð vegna vímuefnaaksturs, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum.
Lögreglumenn fundu fíkniefni og vopn í leit í húsnæði, að fenginni heimild, þar sem þeir voru staddir vegna annars máls. Meint kannabis fannst og fleiri efni auk hnífs.