Heimafæðingar voru talsvert fleiri á seinasta ári en á árunum þar á undan eða alls 118 samanborið við 75 heimafæðingar á árinu 2019. Eru líkur taldar á að heimsfaraldur kórónuveirunnar hafi þar haft einhver áhrif.
Fram kemur í Talnabrunni embættis landlæknis þar sem fjallað er um fæðingar og meðgöngutengda sjúkdóma, að meðalaldur frumbyrja, þ.e.a.s. kvenna sem eignast sitt fyrsta barn, var 28 ár í fyrra. Meðalaldur frumbyrja á Íslandi hefur hækkað um eitt og hálft ár frá árinu 2011.
Konur sem búa á höfuðborgarsvæðinu eru að jafnaði tveimur árum eldri þegar þær eignast sitt fyrsta barn heldur en kynsystur þeirra á landsbyggðinni. Frjósemi kvenna hefur farið minnkandi undanfarna áratugi en frjósemi íslenskra kvenna var 1,71 barn á ævi hverrar konu í fyrra.