Vansvefta og upplifa klukkuþreytu

Góður svefn er mikilvægur.
Góður svefn er mikilvægur. mbl.is/Panthermedia

Ungmenni á Íslandi fara mun seinna að sofa en evrópskir jafnaldrar þeirra þó þau þurfi að vakna á sama tíma í skóla og sofa þar af leiðandi minna. Um 17% nemenda í áttunda til tíunda bekk grunnskóla sofa aðeins um sex stundir eða minna á hverri nóttu samkvæmt nýlegum rannsóknum. Um 43% unglinga á þessum aldri sofa sjö stundir eða minna á nóttu.

Þessar upplýsingar koma fram í aðgerðaáætlun sem landlæknisembættið hefur birt í tengslum við vitundarvakningu um mikilvægi svefns, sem hleypt var af stokkunum 1. október. Rannsóknir sem gerðar hafa verið af Rannsóknum og greiningu leiða í ljós að þriðjungur barna í fimmta til sjöunda bekk grunnskóla hafa átt erfitt með að sofa.

Með tölvu eða síma upp í rúm

„Samkvæmt gögnum úr Ískrá Heilsugæslunnar sem koma fram í óbirtri ársskýrslu um heilsuvernd skólabarna fyrir árið 2019-2020, sögðust 37% barna í 9. bekk og 12% barna í 7. bekk fara „alltaf“ eða „oft“ með tölvuna eða símann upp í rúm þegar þau fara að sofa á kvöldin. Þá sögðust 63% barna í 1. og 4. bekk fara að sofa fyrir klukkan níu á kvöldin, 57% barna í 7. bekk fara að sofa fyrir klukkan tíu og 53% barna í 9. bekk fara að sofa fyrir klukkan ellefu, sem ætti að gefa vísbendingar um það hlutfall sem nær ráðlögðum svefntíma miðað við aldur. Í 4., 7. og 9. bekk voru 14% barna sem sögðust vera „alltaf“ eða „oft“ þreytt á daginn,“ segir í aðgerðaáætluninni.

Fram kemur að ein líklegasta skýringin á svefnleysi meðal unglinga sé röng staðarklukka Íslands og að unglingar séu að upplifa klukkuþreytu, þ.e.a.s. misræmi á eigin líkamsklukku og sólargangi. Einnig eigi hlut að máli að mörg ungmenni drekka orkudrykki daglega.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert