Bókaviti settur upp í Hellisgerði

Saman opnuðu samtökin Karlar í skúrnum og hafnfirsk leikskólabörn nýjan …
Saman opnuðu samtökin Karlar í skúrnum og hafnfirsk leikskólabörn nýjan bókavita í Hellisgerði á upphafsdegi Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2021. Hér er hópurinn með Rósu Guðbjartsdóttir bæjarstjóra Hafnarfjarðar. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Bókaviti var settur upp í Hellisgerði í Hafnarfirði í dag. Bókavitinn er skiptibókamarkaður sem er opinn allan sólarhringinn. Opnun bókavitans markar upphaf bóka- og bíóhátíðar barnanna 2021, að því er greint frá í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Í upphafi sumars viðraði Heilsubærinn Hafnarfjörður þá hugmynd að samtökin Karlar í skúrum sæju um að smíða bókavita sem myndi nýtast sem skiptibókamarkaður allt árið um kring. Karlarnir í skúrum notuðu svo sumarið til að hanna, smíða og mála vitann með aðkomu margra aðila.

Leikskólabörn frá Víðivöllum og Álfabergi fylltu nýjan bókavita af spennandi …
Leikskólabörn frá Víðivöllum og Álfabergi fylltu nýjan bókavita af spennandi bókum með góðri aðstoð meðlima í verkefninu Karlar í skúrnum. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Liður í að auka aðgengi að bókum

Bókavitinn var settur upp á horni Hellisgötu og Reykjavíkurvegar, við einn af nokkrum inngöngum í Hellisgerði, skrúðgarð Hafnfirðinga. Bókavitinn var opnaður formlega í dag á upphafsdegi Bóka- og bíóhátíðar barnanna 2021 og er hann öllum opinn. 

Hópur barna frá leikskólunum Víðivöllum og Álfabergi voru fengin til að taka þátt í formlegri opnun vitans með því að fylla hann af bókum að heiman. Hvert barn lét sína bók í vitann sem er nú uppfullur af ævintýrum og áhugaverðum bókum.

Í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ segir að lestur og lesskilningur sé bæjarbúum hugleikinn og að verkefnið sé liður í því að auka aðgengi að bókum. Þá eru Hafnfirðingar og vinir Hafnarfjarðar hvattir til að nýta sér bókavitann í leit sinni að ævintýrum og nýrri þekkingu, til að grípa sér bók og gefa aðra í staðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert