Vistaður í 572 daga á öryggisgangi á Kleppi

Öryggis- og réttargeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi.
Öryggis- og réttargeðdeildir Landspítalans eru til húsa á Kleppi. Eggert Jóhannesson

Sjúklingur dvaldi á öryggisgangi á Kleppi með og án rýmkunar í 572 daga alls á tímabilinu 1. október 2018 og fram til 1. júní 2021. Þetta kemur fram í svari Landspítala við fyrirspurn umboðsmanns Alþingis en hann hefur nú óskað eftir frekari upplýsingum um vistunina.

Frá þessu er greint á vef umboðsmanns.

Umboðsmaður Alþingis óskaði eftir upplýsingum og gögnum um vistun sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildar á Kleppi frá október 2018 til júní 2021. Fyrirspurn umboðsmanns kom í kjölfar þess að hann, ásamt starfsfólki hans, fór í heimsókn á Klepp í júní. Heimsóknin var til komin vegna umfjöllunar fjölmiðla um starfsemi deildanna og einnig til að fylgja eftir ábendingum úr skýrslu umboðsmanns í kjölfar OPCAT-eftirlitsheimsóknar árið 2018.

Öryggisgangur í notkun í 787 daga

Í svari deildarstjóra og yfirlæknis réttar- og öryggisgeðdeildar á Kleppi við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að á tímabilinu hafi öryggisgangur verið í notkun, með og án rýmkunar, í 787 daga, eða um 81% af tímanum.

Dvöldu þar fimm sjúklingar. Var þá einn sem dvaldi í 572 daga alls, þar af 547 daga með rýmkun og 25 án rýmkunar. Í meðfylgjandi töflu má sjá að skýringin vegna vistunarinnar var ofbeldi. Frekari upplýsingar voru þó ekki veittar í svarinu.

Tafla yfir dvöl á öryggisgangi sem birt var í svari …
Tafla yfir dvöl á öryggisgangi sem birt var í svari við fyrirspurn umboðsmanns. Tafla/Landspítali

Í svarinu er jafnframt tekið fram að á „réttargeðdeild er öryggisgangur notaður í tilfellum þar sem tryggja þarf öryggi sjúklings, samsjúklinga og/eða starfsmanna. Í þeim tilfellum þegar sjúklingur er færður á öryggisgang er um þvingun að ræða og gæta þarf sérstaklega að hagsmunum sjúklings á meðan hann dvelur á ganginum.“

Óskar eftir frekari upplýsingum

Á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar hefur umboðsmaður nú óskað eftir upplýsingum frá Landspítala um aðdraganda vistunarinnar, ákvarðanir í tengslum við hana, hvernig staðið var að upplýsingagjöf, aðbúnaði sjúklings og þeim takmörkunum sem hann þurfti að sæta á hverjum tíma fyrir sig.

Umboðsmaður hefur hann einnig óskað eftir svörum frá embætti landlæknis um hvort embættinu hafi verið kunnugt um vistun sjúklingsins. Ef svo er fer umboðsmaður fram á að honum verði veittar nánari upplýsingar um aðkomu landlæknis að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert