Þau sem urðu fyrir varanlegum skaða geti átt rétt á sanngirnisbótum

Telji sýslumaður umsækjanda eiga rétt á bótum, gengur hann frá …
Telji sýslumaður umsækjanda eiga rétt á bótum, gengur hann frá sáttatilboði og sendir það til umsækjanda. mbl.is/Unnur Karen

Dómsmálaráðuneytið segir að þeir sem urðu fyrir varanlegum skaða á stofnunum fyrir fötluð börn á vegum hins opinbera fyrir 1. febrúar 1993 og sættu illri meðferð eða ofbeldi geti átt rétt á sanngirnisbótum.

Fram kemur í tilkynningu, að sanngirnisbætur séu greiddar til þeirra sem urðu fyrir varanlegum líkamlegum, sálrænum eða félagslegum skaða vegna illrar meðferðar meðan á vistun þeirra stóð. Ill meðferð geti verið ofbeldi og vanræksla og falist í athöfnum eða athafnaleysi starfsmanna og eftir atvikum annarra opinberra aðila.

Þá segir, að í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um aðbúnað barna á vistheimilinu Breiðavík hafi ríkisstjórnin ákveðið árið 2007 að láta rannsaka rekstur vistheimila.

„Vistheimilanefnd vann vandaðar skýrslur um fjölda vistheimila og í kjölfarið voru greiddar sanngirnisbætur til um 1.100 einstaklinga. Árið 2020 var lögum breytt til þess að hægt væri að ljúka bótauppgjöri vegna fatlaðs fólks sem var vistað á barnsaldri á öðrum stofnunum sem hið opinbera bar ábyrgð á,“ segir í tilkynningunni. 

Hafa frest til 31. janúar 2022 til að sækja um bætur

Fram kemur, að sýslumanninum á Norðurlandi eystra hafi verið falið að kalla eftir kröfum um sanngirnisbætur vegna stofnana sem falla undir lögin. Einstaklingar sem telja sig eiga rétt til bóta á grundvelli laganna hafa frest til og með 31. janúar 2022 til að sækja um sanngirnisbætur. Krafist er sanngirnisbóta með því að fylla út umsóknareyðublað sem er aðgengilegt á island.is/sanngirnisbaetur. Umsóknareyðublaðið þarf að senda til Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, Gránugötu 6, 580 Siglufirði en því má jafnframt skila til tengiliðar verkefnisins, að því er ráðuneytið greinir frá. 

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fer yfir umsóknir og metur hverjum skuli greiða sanngirnisbætur. Við matið er m.a. skoðað á hvaða stofnun umsækjandi var vistaður og hversu lengi. Telji sýslumaður umsækjanda eiga rétt á bótum, gengur hann frá sáttatilboði og sendir það til umsækjanda. Frestur umsækjanda til að svara sáttaboði er 30 dagar frá móttöku þess að sögn dómsmálaráðuneytisins. 

Nánar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert