Íbúar á Hlíð á Akureyri gerðu sér lítið fyrir og náðu öðru sæti í alþjóðlegri hjólakeppni milli hjúkrunarheimila. Keppnin heitir Road Worlds for Seniors og er þetta í fjórða sinn sem Akureyringar taka þátt í henni. Norska fyrirtækið Motitech stendur á bak við keppnina og tóku 240 lið þátt frá 11 löndum.
Gullið fór til íbúa á dvalarheimili í Bruyere Villages í Ottawa í Kanada, þeir hjóluðu 14.271 kílómetra. Akureyringarnir lögðu að baki 11.945 kílómetra á þeim fjórum vikum sem keppni stóð.
Ásta Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari segir árangurinn góðan í ár og liðsmenn Hlíðar hafi bætt sig síðan í fyrra þegar þeir hjóluðu ríflega níu þúsund kílómetra. Áður hafa þeir lent í 3., 4. og 5. sæti.
„Þetta var virkilega gaman, frábær árangur og ég er mjög stolt af hópnum,“ segir hún.
Rúmlega 50 manns voru í liði Hlíðar en sumir hjóluðu meira en aðrir, mættu tvisvar á dag til að bæta kílómetrum við fyrir lið sitt. Hjólað er á sérstökum hjólum og hægt að fylgjast með á skjá fyrir framan þau upptökum frá ýmsum löndum, landslagi, borgum og bæjum.
„Hreyfingin hefur góð áhrif á líkamann, hún eykur úthald og liðleika, dregur úr verkjum og stirðleika og hefur góð áhrif á hjarta og æðakerfið. Hún bætir líka meltingu og svefn þannig að hreyfing gerir öllum gott,“ segir Ásta.
Hún segir að mikil stemning sé þegar keppnin er í gangi. „Það er ótrúlega gaman að sjá hvernig hún vekur keppnisskapið hjá fólki og fær það til að hjóla meira og meira. Þeir hörðustu koma tvisvar á dag og jafnvel þrisvar. Góður liðsandi var í hópnum og Þegar við eygðum möguleikann á að lenda í öðru sæti kepptust allir við að hjóla sem mest,“ segir Ásta.