Fólk á bæjum í Út-Kinn í Þingeyjarsveit hefur nú snúið aftur til síns heima eftir að hættuástandi í kjölfar skiðufallanna þar um helgina var aflýst. Það var gert á mánudagskvöldið en eitthvað var um að fólk sneri ekki til baka fyrr en í gærmorgun. Áfram gildir hættustig á svæðinu, en sérfræðingar Veðurstofunnar telja þó að verulega hafi dregið úr skriðuhættu, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Ljóst er að í þessum náttúruhamförum hafa víða orðið skemmdir á túnum og girðingum, þar sem skriður hafa fallið fram á láglendi og yfir tún og girðingar. Tjón á slíku er bætt af Bjargráðasjóði, sem vistaður er í atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytinu. Skv. upplýsingum þaðan eiga bændur að snúa sér til ráðunauta Leiðbeiningamiðstöðvar landbúnaðarins og fá þá til að meta tjón og aðstæður. Slíkt verður svo grundvöllur bótagreiðslna úr sjóðnum.
Enn hafa ekki borist neinar tilkynningar um tjón á húsum eða innbúi fólks, en slíkan miska bætir Náttúruvártrygging Íslands. Huld Ragnheiður Árnadóttir, forstöðumaður stofnunarinnar, segist þó vera í góðu sambandi við ábúendur í Út-Kinn og yfirvöld á svæðinu og fylgst sé með stöðunni.
Nú er komið í ljós að í Kinnarfjöllum við Skjálfandafljót, norðan byggðarinnar í Kinn, hafa miklar skriður fallið á síðustu dögum. „Að líta hér upp eftir fjallshlíðunum er mikið sjónarspil,“ segir Sverrir Yngvi Karlsson, skipstjóri hjá hvalaskoðunarfyrirtækinu Gentle Giants sem gerir út frá Húsavík.
Sverrir sigldi í gær að fjöllunum hvar heitir Naustavík og greindi þar fjórar skriður; þar af tvær afar stórar sem ná hátt úr hlíð alveg í sjó fram. Af myndum sem hann tók virðist sem fyllurnar hafi bókstaflega lekið niður vatnsósa fjallshlíðarnar. Þannig er talið að úrkomumagnið á þessum slóðum, frá föstudagsmorgni til sunnudags, hafi verið allt að 230 mm sem er með því allra mesta sem gerist og því eðlilegt að undan láti.
Í meðfylgjandi myndbandi Íslandsrásarinnar má sjá vel hvernig staðan er eftir skriðurnar.