Blæðingaróregla mögulega vegna bólusetningar

Lyfjastofnun og embætti landlæknis kölluðu eftir nefnd aðila til að …
Lyfjastofnun og embætti landlæknis kölluðu eftir nefnd aðila til að rannsaka tilfelli á röskun tíðahrings í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Ljósmynd/Lyfjastofnun

Ekki er hægt með óyggjandi hætti að útiloka tengsl milli óreglulegra og langvarandi blæðinga við bólusetningar gegn Covid-19. Tengsl milli bólusetninga og fósturláta eru þó talin ólíkleg hér á landi.

Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar óháðrar nefndar sem nýverið var skilað til embættis landlæknis. Greint er frá þessu á vef Lyfjastofnunar.

Í byrjun ágúst tilkynntu Lyfjastofnun og embætti landlæknis að kölluð yrði til nefnd aðila til að rannsaka tilfelli á röskun tíðahrings í kjölfar bólusetningar gegn Covid-19. Markmiðið var að leita skýringa og veita konum stuðning og viðeigandi ráð en um 800 tilkynningar hafa borist Lyfjastofnun sem varða röskun á tíðahring í kjölfar bólusetningar.

Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að „í nokkrum tilvikum er varðar blæðingar í kringum tíðahvörf og hluta tilvika óreglulegra/langvarandi blæðinga sé ekki með óyggjandi hætti hægt að útiloka tengsl við bólusetningu. Af þeim voru tvær tilkynningar tengdar blæðingum í kringum tíðahvörf og fimm vörðuðu óreglulegar og/eða langvarandi blæðingar.“

Skortur á rannsóknum

Ekki hefur þó enn tekist að sanna tengslin í ljósi þess hve milliblæðingar og blæðingaóregla er algengt vandamál hjá konum á frjósemisskeiði. Vekur þá nefndin athygli á því að lítið sé um rannsóknir þar sem bólusetningar hafa verið ítarlega skoðaðar með blæðingaróreglu kvenna sem megin viðfangsefni.

Þá hafa nýlegar niðurstöður rannsóknar vísað til þess að tengsl gætu verið milli álags í heimsfaraldrinum og blæðingaróreglu kvenna. 

Því er það mat nefndarinnar að ekki sé hægt, í flestum tilvikum er varða tilkynningar um blæðingaróreglu, að sýna fram á tengsl við bólusetningar. Voru þá aðrar mögulegar þekktar orsakir til staðar sem taldar voru líklegri skýring. Tekið er þó fram að tilvikin séu fá og því sé sömuleiðis ekki hægt að útiloka tengslin með vissu. 

Ráðleggur nefndin konum að leita til læknis upplifi þær blæðingaóreglu, miklar blæðingar eða önnur ný einkenni tengd tíðahring. Þá sé einnig mikilvægt að konur á breytingarskeiði leiti til læknis fái þær blæðingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert