„Þetta á ekkert eingöngu við um Bláa lónið“

Bláa lónið er staðsett í Grindavík. Þaðan á nú að …
Bláa lónið er staðsett í Grindavík. Þaðan á nú að færa skrifstofustörf. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Óli Þórleifsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins hjá Grindavíkurbæ, hvetur fyrirtæki á Reykjanesi til þess að halda skrifstofustörfum þar. Þróunin síðustu ár hefur verið á þann veg að slík störf hafa færst frá Reykjanesi og til höfuðborgarsvæðisins með þeim afleiðingum að fjölbreytni starfa á Reykjanesi minnkar. 

Sigurður Óli segist harma þá ákvörðun Bláa lónsins að færa skrifstofustörf úr Bláa lóninu við Svartsengi á höfuðborgarsvæðið, sérstaklega í því ljósi að ekki er um auðugan garð að gresja hvað varðar hefðbundin skrifstofustörf á Reykjanesi. Sigurður Óli segir að um 10 störf í Grindavík færist til vegna ákvörðunar Bláa lónsins. 

„Vissulega eru einhverjir sem eru að keyra í dag af höfuðborgarsvæðinu í Bláa lónið svo auðvitað er þetta í báðar áttir, við skiljum það en auðvitað viljum við reyna að halda sem flestum skrifstofustörfum hérna hjá okkur,“ segir Sigurður Óli í samtali við mbl.is.

Hvetur fyrirtæki almennt til að hafa þetta í huga 

Hann bendir á að þetta sé alls ekki eina tilvikið þar sem fyrirtæki ákveða að færa skrifstofustörf frá Reykjanesi til borgarinnar. Nefnir Sigurður Óli t.a.m. Isavia í því samhengi.

„Þetta á ekkert eingöngu við um Bláa lónið, ég vil bara hvetja fyrirtæki almennt til þess að halda skrifstofustörfum hér á Reykjanesinu.“

Ekki stendur til að segja upp fólkinu sem starfar í skrifstofustörfunum sem á að færa hjá Bláa lóninu. 

„Bláa lónið er frábært fyrirtæki, fólkinu býðst að halda áfram, jafnvel að einhverjum hluta í fjarvinnu en þetta er góð áminning til okkar allra á Reykjanesinu að reyna að halda skrifstofustörfum í heimabyggð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert