„Ef Icelandair, sérstaklega með stuðningi Samtaka atvinnulífsins, fengi að gefa það fordæmi að það væri í lagi að segja upp trúnaðarmanni án afleiðinga þá væri verkalýðsbaráttan komin svo langt aftur,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir um ástæður þess að hún ákvað að láta í sér heyra eftir að Icelandair sagði henni upp í ágústmánuði.
„Þetta er bara svo alvarlegt brot,“ segir Ólöf.
Hún starfaði sem hlaðmaður hjá Icelandair frá árinu 2016 og fram til ágúst síðastliðins þegar henni var sagt upp. Ólöf var skráður öryggistrúnaðarmaður hjá Vinnueftirlitinu og segir Efling hana hafa verið trúnaðarmann félagsins. Uppsögnin barst, að sögn bæði Eflingar og Ólafar, á sama tíma og Ólöf var í viðræðum við Icelandair um réttindamál starfsmanna. Deilan sneri að því að Icelandair hugðist, að sögn Ólafar, breyta vaktaplani töluvert og færa ákveðið starf yfir á hlaðdeildina frá annarri deild.
Icelandair hefur sagt Eflingu og Ólöfu að uppsögn hennar verði ekki dregin til baka. Ólöf segist samt áfram óska þess og að hún myndi taka við fyrra starfi sínu að nýju.
„Annars fer þetta bara fyrir félagsdóm. Ég vil náttúrulega að félagsdómur dæmi okkur í hag og sýni fram á að það sé algjör vitleysa að Icelandair geti bara sagt upp trúnaðarmönnum og Samtök atvinnulífsins geti stutt það. Það eina sem ég vil er að fordæmi fyrir því að segja upp trúnaðarmanni séu ekki til.“
Spurð hvað hún haldi að gerist ef félagsdómur komist að þeirri niðurstöðu að Icelandair hafi ekki brotið á henni segir Ólöf:
„Það væri bara hræðilegt fyrir alla. Ég vona að það þurfi ekki að gerast því hvernig á fólk þá að geta staðið á réttindum sínum? Þá geturðu ekki leitað til neins vegna þess að þá hefur enginn það vald að geta farið og sagt eitthvað án þess að eiga á hættu að verða rekinn.“
Ólöf var kosin trúnaðarmaður í marsmánuði árið 2018 og hafði sinnt því hlutverki þar til henni var sagt upp. Þá var hún kosin öryggistrúnaðarmaður í september árið 2020.
„Ég hef alltaf, að ég tel, verið vel liðin í mínu starfi og sinnt því vel. Undanfarna mánuði hef ég verið að vinna í verkefni þar sem ég hef staðið vörð um réttindi okkar. Ég vinn mest í því sem trúnaðarmaður og þá finnst yfirmönnunum ég því kannski með mikið vesen þegar ég segi nei við yfirmennina við einhverju sem þeir telja sig mega gera.“
20. ágúst síðastliðinn fékk Ólöf símtal frá sínum næsta yfirmanni þar sem henni var tilkynnt að hún ætti von á uppsagnarbréfi.
„Það er svolítið sjokk að vera rekin, ég hef aldrei verið rekin úr starfi áður. Hún sagði mér í símtalinu að það væri vegna trúnaðarbrests en hún gæti í raun ekki sagt mér neitt meira nema ég myndi biðja um fund,“ segir Ólöf sem áttaði sig ekki á því að hverju trúnaðarbresturinn sneri. Þá var vinnufélögum hennar einnig, að sögn Ólafar, tilkynnt um það að hún hefði verið rekin vegna trúnaðarbrests.
„Þá fer maður að pæla í því hvað maður gæti hafa gert af sér. Trúnaðarbrestur er mjög alvarlegt hugtak í mínum huga.“
Ólöf bað um fund eftir að uppsagnarbréfið barst og mætti fulltrúi Eflingar með henni á staðinn. Í bréfinu var ekki vikið að ástæðum uppsagnar.
„Þá segja þau að mér hafi verið sagt upp vegna samskiptaerfiðleika. Ég væri hvöss í tali og erfið í samskiptum. Fólk væri jafnvel farið að veigra sér við að hafa samband í gegnum talstöðina. Við spurðum út í þennan trúnaðarbrest. Þá vildi Icelandair ekki kannast við að hafa sagt neitt um þennan trúnaðarbrest. Það væri bara vitleysa. Svo spurðum við hvort þeir teldu sér stætt að segja upp trúnaðarmanni af þessum ástæðum, sérstaklega í ljósi þess að ég hafði aldrei fengið neina löglega áminningu um að starf mitt væri í húfi.“
Ólöf hefur fengið verulega mikinn stuðning við málstað sinn, m.a. frá vinnufélögum sínum.
„Það kom mér svolítið á óvart að þeir voru tilbúnir í að standa upp og berjast með mér. Við erum auðvitað öll félagar og allt það en þeir eru flestir menntaðir flugmenn og vilja margir fá vinnu hjá Icelandair sem flugmenn í framtíðinni. Þá er ekkert auðvelt að standa upp svona og segja nei.“
Þá hefur flugvirkjafélag Íslands lýst yfir fullum stuðningi við Eflingu í báráttu félagsins vegna uppsagnar Ólafar.
„Ég er búin að fá skilaboð og símhringingar frá fólki utan úr bæ. Ég held að fólk sjái hversu mikilvægt þetta er og ég er bara mjög þakklát fyrir það.“