„Við verðum að gæta okkar“

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ljósmynd/Eggert Jóhannesson

Mörg sveitarfélög standa enn vel, en það hallar verulega á hjá sumum. Því þurfi sveitarfélögin að forgangsraða verkefnum og sníða sér stakk eftir vexti. Þetta sagði Aldís Hafsteinsdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga í opnunarávarpi sínu á fjármálaráðstefnu sveitarfélagana á Hilton Reykjavík Nordica í dag.

Á þessari tveggja daga ráðstefnu sem haldin er árlega er umfjöllun um fjármál og almenn rekstraskilyrði sveitarfélaga í brennidepli.

„Hið opinbera á ekki að leiða launaþróun“

Í ávarpinu segir Aldís líkur benda til þess að fjárhagsstaða sveitarfélaga 2021 hafi farið versnandi frá fyrra ári, m.a. vegna aukinna launaútgjalda sem virðast vera langt umfram tekjuaukningu vegna útsvars. Nú standi enn og aftur yfir undirbúningur kjaraviðræðna af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga við fimm stéttarfélög innan Kennarasambands Íslands og við fjögur stéttarfélög innan Bandalags háskólamanna.

„Ég þreytist ekki á því að minna á að hið opinbera á ekki að leiða launaþróun í landinu. Þar á hinn almenni markaður að draga vagninn og þá sérstaklega hinar gjaldeyrisskapandi útflutningsgreinar. Hið opinbera á svo að fylgja í kjölfarið í sama takti. Það eru takmörk fyrir því hvað launakostnaður getur vaxið án þess að stórslys verði raunin. Það verðum við öll að hafa í huga í komandi kjaraviðræðum.“

Frá fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga á Hilton Reykjavík Nordica í …
Frá fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Eggert Jóhannesson

Hentugt íbúðarhúsnæði ein besta kjarabótin

Ein besta kjarabót landsmanna sem völ er á sé hentugt og hagstætt íbúðarhúsnæði um land allt, að sögn Aldísar. Slíkt hafi því miður ekki verið raunin. Gripið hafi þó verið til öflugra aðgerða vegna þessa og eru fleiri aðgerðir á döfinni.

„Nú stendur yfir vinna við að samræma form húsnæðisáætlana og hafa þær stafrænar í einum grunni. Takist það er það mikið framfaraskref á húnsæðismarkaði. Jafnframt er stafrænn og miðlægur fasteigna- og mannvirkjagrunnur sem HMS er að vinna að um þessar mundir afar mikilvægur. Vonandi mun það þar með fljótlega heyra sögunni til að Samtök iðnaðarins sendi út talningarfólk svo hægt sé að átta sig á því hvar byggingarmarkaðurinn standi hverju sinni m.t.t. fjölda mannvirkja í byggingu.“

Þá segir hún það hafa verið ánægjulegt að fylgjast með framkvæmd laga um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Mikið samráð hafi verið haft við fjölda fólks og eignarhalds þessara áætlana því afar víðtækt.

„Íbúar á hverju svæði eiga að hafa áhrif á þróun síns nærsamfélags og verður ríkisvaldið að virða vilja þeirra til atvinnuuppbyggingar til að styrkja búsetuskilyrði hvers héraðs.“

Sambandið og stjórn Byggðarstofnunar hafi nú þegar hvatt alla nýja þingmenn til að taka tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun til umræðu og afgreiðslu sem allra fyrst, að sögn Aldísar.

Í ávarpinu stiklaði Aldís einnig á stóru um ljósleiðaravæðingu landsins, stafrænni umbreytingu sveitarstjórnarstigsins, yfirfærslu grunnskólanna til sveitarfélaga, nýja menntastefnu, málefni barna og aldraðra og mikilvægi þess að sveitarstjórnarmenn fylgist vel með kostnaðarþróun í þeim málum. Þá ræddi hún einnig innleiðingu nýrra breytinga á meðhöndlun úrgangs, heimsmarkmiða sveitarfélaganna í loftlagsmálum og mikilvægi þess að sveitarfélögin taki þátt í þeirri innleiðingu.

Töluverð óvissa framundan í efnahagsmálum

Loks segir hún sveitarfélögin eiga allt sitt undir því hvernig gengur í þjóðarbúskapnum. Nú séu efnahagsspár jákvæðar. Í stað frétta um uppsagnir og atvinnuleysi berast nú fréttir um að ekki takist að ráða í laus störf. Þær fréttir eru bæði jákvæðar og neikvæðar en gefa sterka vísbendingu um að þjóðabúskapurinn sé á uppleið og styrkist með hverjum mánuðinum sem líður, að sögn Aldísar.

„En eins og svo oft áður hér á landi er töluverð óvissa framundan í efnahagsmálum. Opinberar skuldir þarf að greiða niður. Það er sannarlega áskorun við þessi skilyrði að ganga frá fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Tekjuöflun er óviss en víst að kröfur um aukin útgjöld láta ekki á sér standa. Þá er óvissa um lyktir kjarasamninga við mikilvæga starfsmenn sveitarfélaga. Það er vissulega mikil ástæða til að vanda vel til verka og sýna fyllstu varkárni í fjármálum. Ég veit að sveitarstjórnarfólk er þeim vanda vaxið.“

Öll þessi mál eigi sér verulega stórar fjárhagslegar hliðar gagnvart sveitarfélögum. Þá hljómi útgjaldaákallið úr öllum áttum, að sögn Aldísar.

„Við verðum því að forgangsraða og sníða okkur stakk eftir vexti. Við verðum að gæta okkar. Sveitarfélög geta ekki eytt um efni fram í langan tíma án þess að eitthvað bresti. Lögmálið um jafnvægi tekna og gjalda er sígilt og er það grundvallarlögmál sem allir þurfa að lúta, hvort sem þeim líkar það betur eða verr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert