Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms þar sem ekki var fallist á að stjórnvöld hefðu farið út fyrir valdmörk sín með því að vista einstakling í sóttkví, sem var til varnar í málinu.
Fór sóttvarnalæknir fram á að einstaklingurinn, sem ekki hafði verið bólusettur gegn Covid-19, skyldi sæta fimm daga sóttkví frá 2. október og þar til niðurstaða úr seinni PCR-sýnatöku lægi fyrir, sem honum væri skylt að undirgangast og framkvæma skyldi 7. október, eða í gær.
Vildi varnaraðili þá meðal annars meina að ákvörðun sóknaraðila, sóttvarnalæknis, að ákvæði reglugerðarinnar mismuni óbólusettum einstaklingum með ómálefnalegum og ólögmætum hætti.
Komust dómstólar að því að reglugerðin hefði lagastoð í sóttvarnalögum og að hún væri reist á tillögu sóttvarnalæknis til ráðherra um nauðsynlegar takmarkanir vegna sóttvarna.
Þegar litið sé til þeirra skyldna sem hvíla á löggjafarvaldinu og stjórnvöldum til að vernda líf og heilsu landsmanna þegar farsóttir geisa verði að játa þeim nokkurt svigrúm við mat á því hvað teljist nauðsynlegar aðgerðir á hverjum tíma.
Því væru ekki efni til að líta svo á, að ákvæði reglugerðar um sóttkví, einangrun og sóttvarnarráðstafanir á landamærum Íslands vegna Covid-19 og ákvarðanir um aðgerðir á landamærum féllu utan þess svigrúms sem stjórnvöldum væri játað við mat á nauðsyn aðgerða hverju sinni.